Innlent

Fjölga þurfi lög­reglu­mönnum um allt að 75 til að bregðast við styttri vinnu­viku

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fjölga þarf lögreglumönnum nokkuð til að bregðast við styttri vinnuviku.
Fjölga þarf lögreglumönnum nokkuð til að bregðast við styttri vinnuviku. Vísir

Fjölga þarf lögreglumönnum um allt að 75 vegna styttingar vinnuvikunnar. Ríkislögreglustjóri segir ekki duga til að hafa fjölgað lögreglunemum úr fjörutíu í áttatíu í haust. Þeim þurfi að fjölga enn meira til að brúa bilið. 

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun. Þar er haft eftir Gunnari Herði Garðarssyni samskiptastjóra hjá ríkislögreglustjóra að ráða þurfi inn á bilinu fimmtíu til sjötíu og fimm nýja lögreglumenn til að bregðast við styttingu vinnuvikunnar. Sá fjöldi velti þó á mismunandi vaktakerfum.

Óhjákvæmilega hafi þurft að fjölga ófaglærðum lögregluþjónum til að bregðast við stöðunni. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir í samtali við Fréttablaðið að það eigi að vera aðalkeppikefli embættisins að fjölga menntuðum lögreglumönnum. Hlutfall ófaglærðra sé meira vandamál úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu. 

Upphafi komið dæmi um að ófaglærðir lögreglumenn hafi verið hluti af viðbragðsteymi í skotárásarmáli nýlega. Auka þurfi þjálfun við skotvopn til að mæta nýjum tímum og brýnt sé að mennta og þjálfa fleiri lögreglumenn. Lögregla hefur komið áhyggjum sínum um manneklu á framfæri við dómsmálaráðherra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×