Erlent

Evrópu­þingið hættir við nýjan bar í nafni orku­sparnaðar

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Fánar fyrir utan Evrópuþingið í Brussel.
Fánar fyrir utan Evrópuþingið í Brussel. Getty/Santiago Urquijo

Til þess að reyna að spara orkukostnað hefur Evrópuþingið hætt við framkvæmdir og úrbætur á húsnæði í kringum starfsemi þingsins sem nema 6,7 milljónum evra eða um 947,7 milljónum íslenskra króna.

Meðal þess sem fengi að fjúka í nafni orkusparnaðar séu ný teppi á gólf þingsins og bar. Þessar breytingar í fjárnotkun komi til vegna hækkandi orkukostnaðar og yfirvofandi skorts á gasi um stóran hluta Evrópu vegna innrás Rússa í Úkraínu.

Fjórtán fyrirhuguð uppgerðarverkefni hafi verið sett á ís til þess að hægt væri að nota fyrrnefndar 6,7 milljónir evra til þess að greiða orkukostnað annarra bygginga þingsins í Brussel, Lúxemborg og Strassborg. Politico greinir frá þessu.

250.000 evrur eða 36,5 milljónir íslenskra króna hafi átt að fara í endurnýjun á teppum í húsnæðum Evrópuþingsins og 500.000 evrur eða 73 milljónir króna í uppbyggingu á nýjum bar og verönd.

Þó séu ekki allir sáttir við þessa tilfærslu fjármagns og bendi sumir meðlimir þingsins á að besta leiðin til þess að spara orku og fjármagn væri að leyfa meðlimum þingsins að vinna í fjarvinnu eða setja mánaðarlega fundi í Strassborg á pásu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×