Körfubolti

Meistararnir byrjuðu á sigri | Spánverjar unnu stórsigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Luka Doncicog félagar hans í slóvenska landsliðinu í körfubolta hófu Evrópumeistaramótið á sigri.
Luka Doncicog félagar hans í slóvenska landsliðinu í körfubolta hófu Evrópumeistaramótið á sigri. Alexander Scheuber/Getty Images

Riðlakeppnin á Evrópumótinu í körfubolta, EuroBasket, fór af stað í kvöld með sex leikjum. Ríkjandi meistarar Slóveníu unnu góðan sjö stiga sigur gegn Litháen, 92-85, og Spánverjar unnu stórsigur gegn Búlgaríu, 114-87.

Jafnræði var með liðunum þegar Slóvenar og Litháar mættust í fyrstu umferð B-riðils og að loknum fyrsta leikhluta var staðan jöfn, 27-27. Slóvenar náðu svo mest sjö stiga forskoti fyrir hálfleikshléið, en litháíska liðið hleypti meisturunum aldrei of lang fram úr sér og staðan var 51-48 þegar gengið var til búningsherbergja.

Svipaða sögu er að segja af þriðja leikhluta og munurinn var aðeins tvö stig þegar komið var að lokaleikhlutanum. Litháar náðu forystunni snemma í fjórða leikhluta og héldu henni þar til hann var um það bil hálfnaður, en þá vöknuðu Slóvenar aftur til lífsins og sigldu að lokum heim sjö stiga sigri, 92-85.

Þá unnu Spánverjar afar öruggan 27 stiga sigur gegn Búlgaríu í A-riðli þar sem Spánverjar höfðu tuttugu stiga forskot í hálfleik. Búlgarska liðið náði aldrei að komast nálægt því að brúa það bil og niðurstaðan því öruggur sigur Spánverja, 114-87.

Í öðrum leikjum kvöldsins unnu Tyrkir fjögurra stiga sigur gegn Svartfellingum, Bosnía og Hersegóvína vann tíu stiga sigur gegn Ungverjalandi og Belgía vann þriggja stiga sigur gegn Georgíu í framlengdum leik.

Þá er hálfleikur í viðureign Frakka og Þjóðverja, en þar er staðan 38-31, Þjóðverjum í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×