Í dag var haldinn stöðufundur með viðbragðsaðilum sem málið varðar og farið yfir stöðuna. Engar sérstakar breytingar hafa orðið en talsverð skjálftavirkni er enn á svæðinu, að því er segir í tilkynningu á Facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Jarðskjálftahrinan hófst hinn 8. september síðastliðinn og hafa rúmlega 4000 skjálftar mælst í hrinunni. Stærsti skjálftinn mældist fyrir tveimur dögum síðan og var hann 4,9 að stærð.
Frá miðnætti hafa 24 skjálfar af stærðinni þrír eða stærri mælst á svæðinu. Þeir hafa fundist allt inn til Akureyrar.
Óþægilegt að vera í nánd við upptökin
„Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur verið í sambandið við íbúa í Grímsey vegna stöðunnar og hefur komið fram að þeir finna vel fyrir skjálftunum en eru almennt rólegir yfir stöðu mála þó svo að það sé ávallt óþægileg tilfinning að vera í slíkri nánd við upptökin og að vera svona afskekkt ef að eitthvað skyldi koma uppá,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
Varðskipið Þór mun koma á svæðið næstu nótt og vera íbúum eynnar innan handar. Í samtali við mbl.is segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, að um borð í Þór sé átján manna þrautþjálfuð áhöfn sem geti sinnt ýmsum verkefnum sem kunna að koma upp. Skipið verði til taks fyrir norðan eins lengi og þörf þykir, en staðan verði tekin aftur á mánudag.