Samskonar rannsókn á fiskistofnum Elliðavatns hefur verið gerð á hverju hausti undanfarin 35 ár. Þrír vísindamenn Hafrannsóknarstofnunar, líffræðingarnir Friðþjófur Árnason og Sigurður Óskar Helgason og Eydís Njarðardóttir rannsóknarmaður, lögðu 22 net í vatnið í gær með mismunandi möskvastærðum og vitjuðu svo um þau í dag.

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá þau tína afraksturinn úr netunum, sem reyndist 259 silungar, þar af 230 urriðar og 29 bleikjur, sem er svipað og í fyrra.
„Við allavega getum sagt að fiskstofnarnir hérna, urriðinn, sýnir bara góðan vöxt. Það er mikill vöxtur í Elliðavatni þannig að fiskstofnarnir hafa það svo sem ágætt hérna,“ segir Friðþjófur.
„En bleikjunni hefur fækkað og við vitum svo sem ekki alveg nákvæmlega ástæðuna. En líklega er þetta tengt einhverskonar hnattrænni breytingu, jafnvel hlýnun,“ segir líffræðingurinn.

Ein kenningin er að hlýnun ýti undir vöxt sníkjudýrs.
„Við höfum fundið hér sníkjudýr sem þarf talsverðan hita til að blossa upp. Og við vitum að bleikjan er viðkvæm fyrir því. En það eru margir þættir sem geta spilað inn í.
En við erum að sjá þetta víðar heldur en í Elliðavatni; að bleikjustofnum hefur hrakað á landinu.“
Enginn lax var í netunum í dag, þótt hann gangi í gegnum vatnið og upp í Hólmsá og Suðurá til að hrygna.
„Það er hending að við fáum lax í netin. Og ef það gerist þá reynum við nú að sleppa honum, ef hann er með lífsmarki,“ segir Friðþjófur.

Við sáum myndarfiska í netunum, bæði bleikju og urriða, en Friðþjófur segir þá stærstu slaga í tvö kíló. Algengasta stærðin sé þó 300 til 400 grömm.
„Þetta telst bara vera mjög vel haldinn fiskur. Það er góður vöxtur hérna og ekkert að því. Þannig að það er nóg fæða,“ segir líffræðingurinn Friðþjófur Árnason hjá Hafrannsóknastofnun.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: