Innlent

Rölt um „ómanneskjulega hönnun“ nýja Orkuhússins

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Urðarhvarf 8 er húsið sem um ræðir. Strætó stoppar hér rétt fyrir utan en það þarf að ganga hringinn í kring um húsið til að komast að inngangi þess.
Urðarhvarf 8 er húsið sem um ræðir. Strætó stoppar hér rétt fyrir utan en það þarf að ganga hringinn í kring um húsið til að komast að inngangi þess.

„Hönnunarslys“, jafnvel „ómanneskjuleg hönnun“ segja bíllausir um nýja Orkuhúsið í Urðarhvarfi. Þeir kvarta yfir hörmulegu aðgengi fyrir gangandi og hjólandi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.

Andri Snær Magnason rithöfundur vakti máls á þessu á Twitter-síðu sinni í gær. Í stuttu spjalli við fréttastofu í dag spyr Andri sig hver í ósköpunum hafi hannað svæðið því sá hljóti að hata lappir. Hann talar einfaldlega um ómanneskjulega hönnun á svæðinu. 

Hvergi er gangstéttir að finna í kring um húsið. Til að komast að því þarf annað hvort að ganga yfir stórt bílastæði eða fara í gegn um stærðarinnar bílastæðahús. Í húsinu eru Domus barnalæknar og röntgendeild Orkuhússins. 

Í tilefni að bíllausa deginum, sem er haldinn í dag, skelltum við okkur í Strætó upp í Orkuhúsið til að hitta þar ritara Samtaka um bíllausan lífsstíl. Hægt er að horfa á innslagið hér að neðan en þar kallar ritari samtakanna eftir því að verslanir og fyrirtæki fari að hugsa betur um þá sem ekki eiga bíl.

Það er um fjórðungur Íslendinga sem ekki fer flestar ferðir sínar á einkabíl. Við eigum líka pening og jafnvel meiri pening en þeir sem eru að borga bifreiðatryggingar og að halda úti bíl. Þannig að við skulum versla við ykkur ef þið gerið almennilegt aðgengi að híbýlum ykkar," segir Inga Auðbjörg K. Straumland. 

Hún fer yfir það sem betur mætti fara fyrir hjólandi og gangandi í samfélaginu í viðtalinu hér að ofan á meðan við röltum í gegn um bílastæðahús Orkuhússins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×