Að því er kemur fram í frétt Reuters féll pundið um hátt í fimm prósent í morgun gagnvart Bandaríkjadalnum og fór lægst niður í 1,033 dali. Bandaríkjadalurinn hefur sömuleiðis styrkts verulega sem sett hefur aukinn þrýsting á bæði pundið og evruna, sem hefur ekki verið lægri í tuttugu ár meðal annars vegna væntanlegrar orkukreppu í Evrópu.
Pundið hafði þegar fallið um rúmlega 3,6 prósent á föstudag eftir að Kwasi Kwarteng, fjármálaráðherra Bretlands, boðaði frekari skattaívilnanir ofan á 45 milljarða punda aðgerðarpakka til að bregðast við auknum lánsviðskiptum og hærra orkuverði.
The pound has fallen to a record low against the dollar overnight, hitting $1.04.
— Paul Brand (@PaulBrandITV) September 26, 2022
A weak pound makes our imports of gas and oil more expensive, further exacerbating the cost of living crisis. pic.twitter.com/wUITUXjAhB
Þá hafði Seðlabanki Bretlands hækkað stýrivexti um 0,5 prósentustig á fimmtudag upp í 2,25 prósent. Talið er að bankinn gæti hækkað vexti aftur strax í dag.
Að því er kemur fram í frétt BBC má áætla að verð á vörum frá Bandaríkjunum, þar á meðal eldsneyti og olíu, muni hækka verulega ef að pundið heldur áfram að veikjast auk þess sem vænta megi frekari stýrivaxtahækkana með tilheyrandi afleiðingum fyrir húsnæðiseigendur.
Rachel Reeves, efnahagsráðherra skuggaráðuneytisins, segir fall pundsins valda miklum áhyggjum og segir nauðsynlegt að Kwarteng kynni áætlanir til að bregðast við. Hagfræðingar sem Reuters ræddu við segja ríkisstjórn Liz Truss forsætisráðherra, sem aðeins hefur verið við völd í þrjár vikur, vera við það að missa allan trúverðugleika í fjármálum.