Erlent

Fyrstu myndirnar af vatnaveröldinni Evrópu í tuttugu ár

Kjartan Kjartansson skrifar
Mynd Júnó af Evrópu sem var tekin 29. september 2022.
Mynd Júnó af Evrópu sem var tekin 29. september 2022. NASA/JPL-Caltech/SWRI/MSSS

Könnunarfarið Júnó er byrjað að senda myndir frá nærflugi sínu hjá ístunglinu Evrópu við Júpíter. Myndirnar eru þær fyrstu af tunglinu frá því að Galíleó flaug þar fram hjá fyrir 22 árum. Talið er að haf fljótandi vatns sé að finna undir ísilögðu yfirborði Evrópu þar sem líf gæti mögulega þrifist.

Þegar Júnó flaug sem næst Evrópu klukkan 9:36 að íslenskum tíma í gærmorgun var geimfarið í um 352 kílómetra hæð yfir yfirborðinu. Þetta var aðeins í þriðja skipti sem geimfar hefur flogið í innan við 500 kílómetra fjarlægð frá þessu sjötta stærsta tungli sólkerfisins og það næsta sem nokkurt geimfar hefur komist frá því að Galíleó flaug fram hjá í 351 kílómetra fjarlægð í janúar árið 2000.

Fyrsta myndin úr nærfluginu sýnir hluta af yfirborði Evrópu norðan við miðbaug tunglsins. Þar má sjá glöggt sprungur, hryggi og leifar af loftsteinagígum. Myndir Júnó verða þær skörpustu sem til eru af Evrópu, að því er segir í tilkynningu á vef bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA.

Megintilgangur framhjáflugsins, sem stóð aðeins yfir í um tvær klukkustundir á meðan Júnó þeyttist fram hjá á 23,6 kílómetra hraða á sekúndu, var þó ekki að taka snotrar myndir af Evrópu. Geimfarið gerði aragrúa athugana á ísskorpunni og samsetningu hennar, innra byrði tunglsins, jónahvolfi þess og gagnverkun þess við segulsvið Júpíters.

Reyna að finna hvar vatn gæti verið nálægt yfirborði

Evrópa, fjórða stærsta tungl Júpíters og eitt Galíleótunglanna svonefndu, þykir einn mest spennandi hnöttur sólkerfisins. Talið er að undir ísskorpunni sé að finna víðáttumikið haf fljótandi vatns. Sterkir flóðkraftar Júpíters á innyfli Evrópu eru taldir mynda nógu mikinn hita til þess að vatn geti verið á fljótandi formi þrátt fyrir annars naprar aðstæður í ytra sólkerfinu.

Fljótandi vatn er talin grundvallarforsenda lífs. Vaxandi þekking manna á lífverum við neðansjávarstrýtur á hafsbotni á jörðinni þar sem sólarljóss nýtur ekki við kveikti þá hugmynd í kolli vísindamanna að á Evrópu gæti líf mögulega hafa kviknað við sambærilegar aðstæður.

Gögnin sem Júnó safnaði í gær eiga að hjálpa vísindamönnum að átta sig á hvar fljótandi vatn gæti verið að finna í grunnum hólfum undir yfirborðinu. 

Tvö ár eru nú þar til bandaríska geimvísindastofnunin NASA ætlar að skjóta á loft Clipper-geimfarinu sem á að heimsækja Evrópu árið 2030. Þar á það að rannsaka lofthjúp Evrópu, yfirborð hennar og innviði. Meginmarkmið leiðangursins er að rannsaka lífvænleika tunglsins og afla frekari upplýsinga um neðanjarðarhafið, hversu þykk ísskorpan er og leita að vatnsstrókum sem gætu staðið upp af yfirborðinu líkt og goshverir.

Íslenskur áhugamaður búinn að vinna fyrstu myndirnar

Myndir frá svonefndri JunoCam-myndavél geimfarins eru birtar jafnóðum og þær berast á vefsíðu leiðangursins en tilgangurinn með myndavélinni er fyrst og fremst að vekja athygli almennings á honum.

Björn Jónsson, tölvunarfræðingur og áhugamaður um vinnslu á myndum af hnöttum úr sólkerfinu, birti þegar í gær bráðabirgðaútgáfu sína af einni af myndum Juno. Hann telur að á henni sjáist Evrópu í því sem næst rauverulegum lit sínum.

Björn á meðal annars heiðurinn af því sem er talið nákvæmasta kortið af yfirborði Evrópu. Til þess notaði hann myndir frá Voyager 2 og Galíeó.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×