Fótbolti

Ronaldo gæti verið á leið til Miami

Hjörvar Ólafsson skrifar
Cristiano Ronaldo var í byrjunarliði Manchester United gegn Omonia Nikosia í Evrópudeildinni á fimmtudaginn. 
Cristiano Ronaldo var í byrjunarliði Manchester United gegn Omonia Nikosia í Evrópudeildinni á fimmtudaginn.  Vísir/Getty

Cristiano Ronaldo er orðaður við brottför frá Manchester United í komandi janúarglugga en portúgalski landsliðsframherjinn hefur fengið fá tækifæri hjá enska liðinu á nýhafinni leiktíð. 

Nýjasta liðið sem breskir fjölmiðlar telja mögulegan áfangastað Ronaldos er bandaríska MLS-liðið Inter Miami sem er í eigu David Beckham. 

Ronaldo tók við sjöunni af Bekcham sumarið 2003 þegar Portúgalinn kom frá Sporting og enski landsliðsmaðurinn fór til Real Madrid. 

Hjá Inter Miami væri Ronaldo að fylla skarð argentínska sóknarmannsins Gonzalo Higuain sem tilkynnti fyrr í þessari viku að skórnir væru komnir í hilluna hjá honum. 

Til þess að þessi félagaskipti geti gengið í gegn þar Manchester United að láta Ronaldo fara til Inter Miami á frjálsri sölu. 

Það spilar líklega inn í þessa ákvörðun hversu miklar tekjur Ronaldo halar inn fyrir Manchester United þrátt fyrir að framlag hans inni á fótboltavellinum hafi minnkað síðustu misserin. Samningur Ronaldos við Manchester United rennur út næsta sumar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×