Körfubolti

Jón Axel má spila með Grindavík

Sindri Sverrisson skrifar
Jón Axel Guðmundsson ætti að styrkja lið Grindavíkur mikið.
Jón Axel Guðmundsson ætti að styrkja lið Grindavíkur mikið. Vísir/Hulda Margrét

Landsliðsmaðurinn Jón Axel Guðmundsson er kominn með félagaskipti til uppeldisfélags síns Grindavíkur og getur því spilað með liðinu í Subway-deildinni í körfubolta í vetur.

Jón Axel, sem er 25 ára, hefur æft með Grindavík að undanförnu og spilaði æfingaleik með liðinu á dögunum. Hann var með til skoðunar að spila erlendis, til að mynda með varaliðum NBA-liða í hinni svokölluðu G-deild. 

Nú er Jón Axel hins vegar kominn með félagaskipti til Grindavíkur og getur því spilað gegn Keflavík á fimmtudagskvöld.

Samkvæmt upplýsingum Vísis hefur Jón Axel þó enn ekki skrifað undir neinn samning við Grindavík, þó að félagaskiptin séu nú komin í gegn hjá KKÍ. Ekkert hefur verið birt á miðlum Grindavíkur um endurkomu hans.

Ljóst er að ef af verður myndi koma þessa öfluga landsliðsmanns styrkja lið Grindavíkur gríðarlega. Hann lék síðast með Grindvíkingum árið 2016 en fór svo í bandaríska háskólakörfuboltann og lék með Davidson skólanum. 

Síðan þá hefur hann spilað sem atvinnumaður í Þýskalandi og á Ítalíu en hann lék síðast með Crailsheim Merlins í þýsku úrvalsdeildinni seinni hluta síðustu leiktíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×