Skoðun

Ekki bara slags­mál heldur ein­beitt árás til að skaða

Kolbrún Baldursdóttir skrifar

Ekkert okkar hefur farið varhluta af fréttum um aukið ofbeldi meðal ungmenna og fjölgun stunguárása. Lögregla gaf nýverið út yfirlýsingu þar sem hún lýsti áhyggjum yfir auknum vopnaburði meðal ungmenna í miðbæ Reykjavíkur. Orsakir eru bæði flóknar og margslungnar en tengjast oft á tíðum fíkniefnanotkun. Aukin fíkniefnanotkun meðal barna er hins vegar ekki að mælast í niðurstöðum kannanna Rannsókna og greininga. Þvert á móti sýna niðurstöður að íslensk börn hafa verið að koma æ betur út sl. 22 ár og að neysla vímuefna hefur dregist saman og þau hafa ekki greint aukningu á ofbeldi meðal barna. Skilaboðin eru því misvísandi, annars vegar sýna niðurstöður að vímuefnaneysla og vopnaburður ungmenna sé að færast í vöxt og hins vegar að áfengis- og vímuefnaneysla íslenskra ungmenni dragist saman. Hver er raunveruleikinn?

Vopn í skólatöskunni

Þau vopn sem ungmenni eru að nota í vaxandi mæli eru hnífar, einnig hnúajárn, hamrar og jafnvel öxi. Dæmi eru um að ungmenni gangi um með vopn af þessu tagi í skólanum og eftir skóla. Þau eru einfaldlega geymd í skólatöskunni. Ofbeldisbrotin eru gróf, stunguárásir og skurðir. Þetta eru ekki slagsmál heldur árásir með einbeittan vilja til að skaða, jafnvel stórskaða. Af mörgum ofbeldisbrotum hafa síðan verið teknar ýmist myndir eða myndbönd sem dreift er út á netið með alvarlegum, langvinnum afleiðingum. Gerendur ofbeldis sem setja myndefni af ofbeldi á samfélagsmiðla hugsa oft dæmið ekki til enda. Þau átta sig kannski ekki á því að efnið verður aðgengilegt á netinu um ókomna tíð. Þetta þarf að ræða við börn og minna þau á að fullorðinslífið bíður handan við hornið. Þegar sem dæmi viðkomandi gerandi fer í atvinnuleit þá eru atvik úr fortíðinni sem meitluð í stein.

Spyrnum við fótum

Sem sálfræðingur til þrjátíu ára og borgarfulltrúi í næstum5. ár er ég eins og margir aðrir uggandi yfir auknum vopnaburði meðal ungmenna. Þess vegna hefur Flokkur fólksins lagt fram tillögu í borgarstjórn um að settur verði á laggirnar starfshópur sem kortleggi aukinn vopnaburð meðal ungmenna í Reykjavík. Hópurinn myndi einnig koma með hugmyndir um hvernig spyrna megi fótum við þessari neikvæðu þróun.

Öllum börnum sem beita ofbeldi þarf að hjálpa og hlúa þarf að foreldrum þeirra með ráðgjöf og stuðningi. Mál barna og ungmenna sem beita ofbeldi af einbeittum ásetningi er áfall, ekki aðeins fyrir foreldra og fjölskyldu heldur okkur öll. Í máli af þessu tagi er ekkert einfalt og varast þarf að draga ályktanir eða dæma. Ótal margt kemur vissulega upp í hugann þegar fréttir berast af börnum sem fara út með vopn í hendi til þess eins að skaða, meiða og jafnvel drepa annan einstakling.

Hver er áhrifavaldurinn, hvaðan kemur hugmyndin og hvernig spilar áhrifagirni og ögranir þarna inn í. Hvaða tilfinningar eru í gangi? Er reiði, vonleysi og hvar er samkenndin?

Langflestir fæðast með tilfinningu um samkennd, að finna til með öðrum þótt það sé vissulega eitthvað misjafnt og þá kannski helst hvernig sú tilfinning er nærð og hvernig hún fær að þróast með einstaklingnum. Það er of mikil einföldun að kenna Netinu og samfélagsmiðlum um þetta allt. Einu sinni var ekkert net og engir samfélagsmiðlar. Þangað viljum við ekki fara aftur. Alnetið er komið til að vera með sínum kostum og ókostum. Allt of stór hópur barna er á samfélagsmiðlum sem hafa ekki aldur til þess og eftirlit foreldra með börnum á netmiðlum er mismunandi. Ráðgjöf og hvatning til foreldra að standa í lappirnar með reglur skiptir sköpum þegar kemur að Netinu og samfélagsmiðlunum. Kaup og sala fíkniefna fer einnig að mestu fram á samskiptaforritum netsins eftir því sem rannsóknir sýna. Því má jafnframt velta upp í hversu miklum mæli vopnasala til barna undir aldri fer fram á netinu. Veit það einhver?

Reykjavík á að vera leiðandi

Reykjavíkurborg, stærsta sveitarfélag landsins á að vera leiðandi í þessu sem öðru. Leggja þarf línur, hefja umræðuna og markvissa vinnu til að sporna við þessari þróun. Sú tillaga sem Flokkur fólksins leggur fram í borgarstjórn í dag 18. október er liður í því að fá upp á borð hugmyndir að fjölbreyttum aðgerðum sem hafa það að markmiði að ná til barna, foreldra og annarra sem tengjast börnum í daglegu starfi þeirra. Sú neikvæða þróun sem hér er lýst kallar enn frekar á að Reykjavíkurborg hraði innleiðingarferli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Höfundur er sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×