Lífið

Einangraður og umdeildur eftir röð hatursfullra ummæla

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Rapparinn hefur síðastliðnar vikur verið sakaður um gyðingahatur og rasisma en hann hefur lengi verið umdeildur. 
Rapparinn hefur síðastliðnar vikur verið sakaður um gyðingahatur og rasisma en hann hefur lengi verið umdeildur.  Getty/Stephane Cardinale

Rapparinn Kanye West á ekki sjö dagana sæla um þessar mundir en ummæli hans og hegðun síðastliðnar vikur hafa vakið talsverða athygli. Samfélagsmiðlar hafa lokað á aðgang hans og fyrirtæki slitið öll tengsl við hann. Ekkert lát virðist vera á hatursfullum ummælum hans en af ýmsu er að taka.

Kanye West, eða Ye eins og hann heitir í dag, vakti mikla athygli í byrjun október þegar hann klæddist bol með áletruninni „White Lives Matter“ á tískusýningu í París. 

Setningin, sem er svar við „Black Lives Matter“ slagorðinu sem var notað í mótmælum gegn lögregluofbeldi, er flokkuð sem hatursorðræða af samtökunum Anti-Defamation League og hefur verið notuð af öfgasamtökum á borð við Ku Klux Klan.

Með honum á tískusýningunni var íhaldssami fréttaskýrandinn Candace Owens en hún klæddist einnig samskonar bol. Eftir mikla gagnýni í garð Ye svaraði hann að „Black Lives Matter“ hafi verið svik og sagði fólk taka þátt í að „rífa niður svartan mann fyrir að hafa aðra pólitíska skoðun.“

Kanye West sagði fólk taka þátt í að rífa hann niður fyrir það eitt að hafa aðra skoðun.

Í viðtali við Tucker Carlson, þáttastjórnanda hjá Fox News, svaraði Ye enn frekar fyrir sig og sagði að honum hafi fundist að lífi hans væri ógnað vegna málsins. 

Þá nýtti hann tækifærið til að skjóta á söngkonuna Lizzo fyrir að ýta undir óheilbrigðan lífstíl og sagði fyrrverandi eiginkonu sína eiga í nánu sambandi við Clinton hjónin, meðal annars. Einnig skaut hann á gyðinga í viðtalinu.

Ætlaði að fara „death con 3“ á gyðinga

Innan við viku síðar, á meðan hann sætti enn gagnrýni vegna „White Lives Matter“ ummælanna, birti Ye færslu á Twitter síðu sinni þar sem hann beindi spjótum sínum að gyðingum. Talaði hann um að fara „death con 3“ á gyðinga og var þar líklegast að vísa til defcon, stigakerfi fyrir viðbragðsstöðu bandaríska hersins.

Sjálfur sagðist hann ekki geta verið á móti gyðingum þar sem svartir væru í raun einnig gyðingar.

Eftir að West beindi spjótum sínum að gyðingum ákvað Twitter að loka fyrir aðgang rapparans. 

Áður hafði Ye birt skjáskot af samskiptum sínum við rapparann Sean Combs, sem er betur þekktur sem Diddy og Puff Daddy, þar sem hinn síðarnefndi hafði gagnrýnt Ye fyrir „White Lives Matter“ uppátækið. Sagði Ye þá að Combs væri stjórnað af gyðingum. Enginn gæti stjórnað honum og þetta væri „stríð.“

Þá kom í ljós nokkrum dögum eftir viðtalið hjá Carlson að nokkrir bútar hefðu verið klipptir út, þar sem Ye hélt ýmsu fram. Þannig talaði hann um að eftirlíking af börnum hans hefði verið komið fyrir á heimili hans og sagði að einu barni hans hafi verið rænt í miðri afmælisveislu.

Þá hélt hann áfram að tala um gyðinga og fullyrti meðal annars að stofnandi Planned Parenthood hafi stofnað samtökin með Ku Klux Klan til að ná stjórn á íbúafjölda gyðinga. Sagðist hann vera að vísa til svartra, sem væru hinir raunverulegu gyðingar.

Samtök bandarískra gyðinga voru meðal þeirra sem fordæmdu ummæli rapparans harðlega og sögðu þau hættuleg. Orðræða hans hafi orðið sífellt hættulegri og veruleikafirrtri og þó að hann væri að glíma við geðröskun þá væri það engin afsökun. 

Þá var hann hvattur til að heimsækja Helfararsafnið í Los Angeles til að kynna sér hvað hættuleg orðræða gæti leitt til.

Helfararsafnið í Los Angeles hvatti West til að heimsækja þau til að læra um afleiðingar sem hatursfull ummæli geta haft. 

Umdeild viðtöl tekin úr birtingu

Í síðustu viku ákváðu síðan stjórnendur YouTube þáttarins The Shop: Uninterrupted að sýna ekki viðtal við Ye. 

Maverick Carter, sem framleiðir þáttinn ásamt körfuboltagoðsögninni LeBron James, sagði þau hafa talið að Ye væri hæfur til að eiga í málefnalegri umræðu en hann hafi síðan nýtt sér vettvanginn til að halda áfram að spúa hatursfullri orðræðu.

Um helgina var hann aftur á móti gestur í hlaðvarpsþættinum Drink Champs þar sem hann hélt áfram að halda ýmsu fram. Þar sagðist hann meðal annars efast um að lögreglumaðurinn Derek Chauvin hafi valdið dauða George Floyd. 

Hann hélt því fram að hann hafi látist vegna þess að hann tók of stóran skammt af fentanýl og sagði Chauvin, sem dæmdur var í rúmlega 22 ára fangelsi vegna málsins, ekki lagt hné sitt á háls Floyd. Fjölskylda Floyd íhugar nú málaferli gegn rapparanum. 

Viðtalið var loks fjarlægt degi síðar en þar sagði hann einnig að Planned Parenthood væri „Helfararsafn svartra“ og hélt langa ræðu um „fjölmiðla gyðinga.“

Fréttamaðurinn Chris Cuomo ræddi þá við Ye í gær í þættinum NewsNation þar sem rapparinn svaraði fyrir sig og hélt langa ræðu þar sem hann ítrekaði að hann gæti ekki verið sakaður um gyðingahatur þar sem hann skilgreindi sjálfan sig sem gyðing. 

Fyrirtæki slíta tengsl og samfélagsmiðlar loka á West

Samstarf Ye við fatarisann Adidas er nú í uppnámi vegna ummæla síðustu vikna en í síðustu viku sögðust forsvarsmenn hjá Adidas vera að skoða samning þeirra við hann og framtíð þeirra. 

Í síðasta mánuði greindi Ye einnig frá því að hann hafi slitið samstarfi við fatarisann Gap en í báðum tilfellum greindi hann stjórnendum um. Þá hafa fleiri fyrirtæki reynt að fjarlægja sig frá rapparanum.

Aðgangi Ye að samfélagsmiðlunum Instagram og Twitter var lokað tímabundið eftir að hann birti samskipti sín við Sean Combs og aftur eftir „death con“ ummælin þar sem miðlarnir sögðu að um hatursorðræðu væri að ræða.

Í gær sagði rapparinn samfélagsmiðla ekki halda uppi málfrelsi og því hafi hann ákveðið að kaupa sinn eigin, hinn umdeilda samfélagsmiðil Parler sem var um tíma vinsæll meðal íhaldsmanna. 

Þá ætli hann að hitta Donald Trump Bandaríkjaforseta í vikunni, bjóða honum á Parler og opna síðu á Trump Social, samfélagsmiðli Trumps.

Löng saga umdeildra ummæla

Gagnrýni er rapparanum umdeilda ekki ókunnug en hann hefur gert og sagt ýmislegt í gegnum tíðina. Eitt frægasta atvikið var árið 2009 þegar West óð upp á svið þegar söngkonan Taylor Swift var að taka við verðlaunum fyrir besta tónlistarmyndbandið á MTV tónlistarverðlaunum og sagði Beyoncé eiga verðlaunin skilið.

Ummæli hans urðu þó af alvarlegri meiði þegar á leið og árið 2015 sagði hann meðal annars í viðtali að rasismi væri „úreltur“ og þýddi í raun ekki neitt. Umræða um rasisma átti eftir að koma oftar upp hjá rapparanum á næstu árum.

Hann hefur rætt forsetaframboð, og stefnir í raun á að bjóða sig aftur fram eftir tvö ár, og látið ýmis ummæli falla.

Á stuðningsmannafundi árið 2020 talaði hann meðal annars um að hann vildi að þáverandi eiginkona hans, Kim Kardashian, færi í fóstureyðingu þegar hún var ólétt af yngsta barni þeirra. Kardashian sótti um skilnað í febrúar 2021 og hefur samband þeirra verið vægast sagt erfitt frá þeim tíma.

Þá studdi West við Donald Trump þáverandi Bandaríkjaforseta á sínum tíma og fundaði með honum árið 2018. Sama ár sagði hann í sjónvarpsþætti TMZ að þrældómur svartra hafi hljómað eins og val. Hann baðst þó afsökunar á þeim ummælum og sagði þau hafa verið misskilin.

Hann sneri þá aftur á samfélagsmiðilinn Twitter eftir langt hlé þar sem hann hélt áfram að lýsa yfir stuðningi við Trump.

Síðastliðna mánuði hefur rapparinn einna helst herjað á fyrrverandi eiginkonu sína og gagnrýnt að hann hafi ekki fengið að sjá börnin sín fjögur sem þau eiga saman. Hann hefur einnig skotið fast á grínistann Pete Davidsson en hann var um tíma kærasti Kim Kardashian og birt um hann níðfærslur á samfélagsmiðlum.

Pete Davidson og Kim Kardashian hættu saman fyrr á árinu en þá tilkynnti West um dauða „Skete Davidson.“

Geðhvarfssýki engin afsökun

West var greindur með geðhvarfasýki árið 2018 og hafa margir bent á að hegðun hans kunni að hafa litast af því. 

Sérfræðingar hafa þó ítrekað að það afsaki ekki hatursorðræðu en Carla Manly, klínískur sálfræðingur, sagði í viðtali við USA Today á dögunum að það væri til fólk sem glímdi við geðræna erfiðleika sem væru ekki rasistar eða fordómafullir. 

Þetta tók annar klínískur sálfræðingur, Andrea Bonior, undir og varaði við því að fólk tengdi saman geðræna erfiðleika og hatursfull ummæli. 


Tengdar fréttir

Fjöl­skylda George Floyd í­hugar mála­ferli gegn Kanye

Fjölskylda George Floyd sem myrtur var af lögreglumönnum í Minneapolis í maí árið 2020 íhugar nú að fara í mál við rapparann Kanye West. Kanye sagðist efast um orsök dauða Floyd í hlaðvarpsþætti í vikunni.

Ye kaupir eigin samfélagsmiðil

Listamaðurinn Ye, eða Kanye West, ætlar að kaupa Parler, sem er umdeildur og áhrifalítill samfélagsmiðill, skömmu eftir að hann var bannaður á Twitter og Instagram vegna færslna sem innihalda gyðingahatur. Ye segir samfélagsmiðla ekki halda uppi málfrelsi og því hafi hann keypt eigin miðil.

Kanye bannaður eftir á­sakanir um gyðinga­hatur

Rapparanum Kanye West var um helgina úthýst af Instagram og Twitter eftir að hafa birt færslur sem hvöttu til ofbeldis gegn gyðingum. West segist ekki geta verið gyðingahatari því hann sé svartur.

Adidas skoðar framtíð Kanye

Fyrirtækið Adidas er að endurskoða samstarf sitt við tónlistarmanninn Kanye West. „Farsælt samstarf byggir á sameiginlegri virðingu og sömu gildunum,“ sagði fyrirtækið í tilkynningu. 

Kanye West svarar fyrir sig eftir gagnrýni á „White Lives Matter“ boli

Rapparinn Kanye West sætir mikilli gagnrýni um þessar mundir fyrir að hafa klæðst bol með áletruninni „White Lives Matter“ á tískusýningu í París í vikunni. Þá fullyrti hann að „Black Lives Matter“ hafi verið svik og sagði fólk taka þátt í að „rífa niður svartan mann fyrir að hafa aðra pólitíska skoðun.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Viðburðir

Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.