162 farþegar voru um borð í Korean Air flugvélinni og ellefu starfsmenn. Allir komust út úr vélinni stuttu eftir brotlendinguna og allir ómeiddir. Tugum fluga hefur nú verið aflýst til og frá Mactan-Cebu alþjóðaflugvellinum en brotlendingin varð við endann á einu nothæfu flugbraut vallarins. Vélin brotlenti í gærkvöldi en flakið liggur enn á flugbrautinni.
Forstjóri Korean Air hefur beðist afsökunar á atvikinu og heitið því að flugfélagið geri allt sem er í valdi þess til að koma í veg fyrir að eitthvað þessu líkt komi fyrir aftur.
Samkvæmt frétt AP um málið skrapaðist undan framhlið flugvélarinnar þannig að op myndaðist og nef hennar er mikið skemmt. Flugvélin liggur eins og áður segir mikið skemmd í grasbala við enda flugbrautarinnar og neyðarrennibrautir uppblásnar við útgangana.
Að sögn filippseyskra yfirvdala verður flugvélin tæmd af eldsneyti áður en tilraunir verða gerðar til að fjarlægja hana af flugbrautinni. Þá er verið að athuga hvort öruggt sé fyrir aðrar flugvélar til að ferðast um völlinn á meðan flugvélin er enn föst við flugbrautina.