Handbolti

Rauða spjald Jóhanns Birgis dregið til baka

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann Birgir í leik gegn Haukum á dögunum.
Jóhann Birgir í leik gegn Haukum á dögunum. Vísir/Hulda Margrét

Aganefnd HSÍ fundaði í gær og tók þá fyrir mál fjögurra leikmanna sem fengu rautt spjald í 7.umferð Olís-deildar karla um síðustu helgi. Rauða spjaldið sem FH-ingurinn Jóhann Birgir Ingvarsson fékk gegn ÍBV var dregið til baka.

Í úrskurði nefndarinnar, sem lesa má á vef HSÍ, er greint frá úrskurði í málum þeirra Jóhanns Birgis og Ágústs Birgissonar leikmanna FH sem og í málum Blæs Hinrikssonar og Igors Kopyshynskyi leikmanna Aftureldingar. Allir fengu þeir rautt spjald í leikjum liða sinna á sunnudag þar sem FH mætti ÍBV í Eyjum og Afturelding lék gegn Herði á Ísafirði.

Athygli vekur að dómarar í sigurleik FH í Vestmannaeyjum, þeir Vilhelm Gauti Bergsveinsson og Ólafur Víðir Ólafsson, óskuðu eftir því við aganefndina að rauða spjald Jóhanns Birgis yrði dregið til baka þar sem þeir mátu sem svo að ákvörðun þeirra í leiknum hafi verið röng.

Spjaldið var það fyrra af tveimur rauðum spjöldum sem FH-ingar fengu í leiknum en þeir unnu ÍBV þó með eins marks mun. Voru þetta fyrstu stigin sem lið í Olís-deildinni sóttu til Eyja á tímabilinu. Spjald Ágústs stendur óhaggað en hann var þó ekki sendur í leikbann af aganefndinni.

Sama á við um rauðu spjöld Blæs Hinrikssonar og Igors Kopyshynskyi á Ísafirði. Hvorugur þeirra fær leikbann og geta þeir því leikið með Aftureldingu í næstu umferð Olís-deildarinnar þar sem liðið tekur á móti KA.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×