Repúblikanar ná líklega meirihluta í bæði fulltrúa- og öldungadeild Bandaríkjaþings í kosningunum sem haldnar eru í dag, samkvæmt síðustu könnunum.
„Ef við glötum bæði fulltrúadeildinni og öldungadeildinni, þá verða þetta tvö hræðileg ár,“hefur CNN eftir Biden á kosningafundi í Chicago síðastliðinn föstudag.
Þessi ummæli lét hann falla í litlum hóp stuðningsmanna Demókrata á viðburði þar sem ekki var leyfilegt að mæta með myndavélar.
„Góðu fréttirnar eru þær að ég held á penna með neitunarvaldi,“ sagði Biden og vísaði þar í það vald forseta Bandaríkjanna til að neita að samþykkja lagasetningu frá Bandaríkjaþingi.
Yfirgnæfandi líkur eru á því að Repúblikanar nái meirihluta í fulltrúadeildinni, en einhver spenna gæti þó myndast í kosningunum til öldungadeildarinnar, þar sem mjórra er á munum. Demókratar hafa nú völdin í báðum deildunum.
Hafi flokkur forsetans vald yfir hvorugri deild Bandaríkjaþings gerir það starf forsetans mun erfiðara.
Yfirráðum á fulltrúadeildinni fylgir mikið vald yfir fjárútlátum ríkisins og sömuleiðis vald yfir nefndum sem hægt er að nota til að rannsaka menn og málefni. Þingmenn öldungadeildarinnar staðfesta flestar af embættistilnefningum forseta Bandaríkjanna og eru dómarar í Hæstarétt þar á meðal.
Þetta gerir það að verkum að forsetanum reynist erfiðara að koma sínum áherslumálum áfram, án málamiðlana. Demókratar binda vonir við að einhverjar líkur séu á því að völdin í öldungadeildinni haldist áfram innan þeirra raða.
Þingkosningar fara sem fyrr segir fram í dag í Bandaríkjunum, samhliða ríkistjórakosningum í 36 ríkjum og kosninga til fjölmargra embætta víðs vegar um Bandaríkin. Kosið er um öll 435 sæti fulltrúadeildarinnar og 35 af hundrað sætum öldungadeildarinnar.