Innlent

„Staðfestir mjög sterka lagalega stöðu“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Arne Vagn Olsen, forstöðumaður eignastýringar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.
Arne Vagn Olsen, forstöðumaður eignastýringar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. aðsend

Lögfræðiálit um ÍL-sjóð og möguleg slit hans staðfesta sterka lagalega stöðu lífeyrissjóðana gagnvart ríkinu. Áform fjármálaráðherra um gjaldþrot eða sambærileg slit sjóðsins brýtur gegn bæði stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. 

Þetta segir Arne Vagn Olsen, forstöðumaður eignastýringar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, og máli sínu til stuðnings vísar hann til lögfræðiálits lögmannsþjónustunnar LOGOS sem var birt í dag. Þar segir meðal annars að ríkið beri beina ábyrgð á skuldbindingum ÍL-sjóðs og að sjóðurinn teljist hluti af fjármálaráðuneyti. 

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur mótmælt því harðlega að slitameðferð ÍL-sjóðs jafngildi greiðslufalli ríkissjóðs. Það staðhæfir hins vegar lögfræðiálit LOGOS.

„Þetta staðfestir mjög sterka lagalega stöðu sem við töldum okkur hafa. Í þessu áliti er alveg rakið skref fyrir skref, lagaleg staða sjóðanna. Það er ekki annað að sjá en að ríkið sé í fullkomnum órétti með þetta. Með þessu væri mögulega brotið gegn bæði stjórnarská og mannréttindasáttmála Evrópu,“ segir Arne Vagn Olsen og vísar þar til þeirrar ályktunar í áliti LOGOS að fyrirhugað inngrip fæli í sér eignarnám eða annars konar skerðingu eignarréttinda og myndi gera íslenska ríkið bótaskylt gagnvart skuldabréfaeigendum.

Hann telur því að endurskoða verði vegferð ríkisins í málefnum ÍL-sjóðs. Hann segir bótarétt sem myndi skapast við slitin geta reynst ríkissjóði dýrari en ella.

Sjá einnig: Rík­ið spar­ar 150 millj­arð­a með því að slít­a gaml­a Í­búð­a­lán­a­sjóð­i

„Þetta er gríðarlega stórt viðfangsefni sem við fengum í hendurnar 20. október þegar fjármálaráðherra kynnti sín áform. Það greiningarferli tók fyrst og fremst til þeirrar lagalegu stöðu sem við töldum okkur hafa og ítarlegt álit LOGOS er að staðfesta. Nú verðum við bara að meta stöðuna og ráðherra hlýtur að meta sína stöðu núna. En við allavega teljum okkar stöðu vera mjög sterka,“ segir Arne að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×