Í yfirlýsingunni fordæma samtökin allt ofbeldi og vopnaburð.
„Ljóst er að þegar slíkir atburðir verða er samfélaginu brugðið. Á því eru skemmtistaðaeigendur engin undantekning. SRS fagna því aukna eftirliti lögreglu sem nú er boðað og munu gera allt sem i sínu valdi stendur til þess að tryggja öryggi gesta sinna,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá er tekið fram að þegar atburðir á borð við þann sem varð um síðastliðna helgi ríði á að allar stofnanir samfélagsins geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja öryggi borgaranna.
„Íslenskt samfélag hefur góða sögu að segja í samfélagslegum og sameiginlegum átaksverkefnum líkt og dæmin sanna. Mikilvægt er að umræðan fari fram á yfirvegaðan hátt og sé byggð á staðreyndum. Nú berast fregnir af því að vopnaburður sé orðinn algengari en áður var. Það er gríðarlega alvarlegt mál. Nú þarf íslenskt samfélag, skólakerfið, foreldrar, stjórnmálin og borgararnir að taka höndum saman um úrbætur. Þar munu skemmtistaðaeigendur ekki láta sitt eftir liggja,“ segir í yfirlýsingunni frá stjórn SRS.