Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 en Hvammsvirkjun yrði fyrsta virkjunin í neðri Þjórsá, 95 megavött að stærð. Það var í júnímánuði í fyrra, árið 2021, sem Landsvirkjun sótti um virkjunarleyfið. Núna, hálfu öðru ári síðar, er það loksins að komast í höfn.
„Það er mjög ánægjulegt að við erum búnir að fá leyfið. Við fyrstu sýn virðist ekki vera neitt óvænt í því. Þannig að við munum núna bara fara yfir það og vonandi klára það bara alveg á næstu vikum,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

En telur hann þetta eðlilegan tíma sem það tók Orkustofnun að afgreiða virkjunarleyfið?
„Nei, ég myndi ekki telja það. Áður fyrr hefur þetta tekið svona um þrjá og hálfan mánuð. Þannig að þetta er óheppilegt.
En við vonum bara að þetta gangi til dæmis betur núna með Búrfellslund, sem við erum búnir að leggja inn. En þetta tók að okkar mati óeðlilega langan tíma.“

Hörður segir næsta skref að sækja um framkvæmdaleyfi til sveitarfélaganna og vonast til að það gangi vel. Samhliða því verði útboð undirbúin og síðan þurfi lokaumfjöllun stjórnar Landsvirkjunar.
„En við vonum að það eigi allt að geta gengið í gegn svona á næstu mánuðum.“
Hörður áætlaði í fyrra að kostnaður við Hvammsvirkjun yrði á bilinu 300 til 350 milljónir dollara, eða 40 til 45 milljarðar króna, en segir núna að allar kostnaðartölur hafi síðan hækkað. En hvenær gætu framkvæmdir hafist?
„Það eru svona möguleikar á því að það geti orðið svona á miðju næsta ári. En að sjálfsögðu er þetta háð samþykki stjórnar Landsvirkjunar,“ segir Hörður.

Byrjað yrði á vegagerð og aðstöðusköpun.
„Síðan myndum við mjög fljótlega byrja á framkvæmdum tengdum virkjuninni, bæði frárennslisskurðinum, ætlum sem sagt að nýta hluta af efninu þar í vegagerð.“

Framkvæmdunum fylgir langþráð brúarsmíði yfir Þjórsá á móts við Árnes, sem styttir vegalengdir um tugi kílómetra milli efstu byggða í Árnes- og Rangárvallasýslu.
„Það yrði eitt af fyrstu verkunum sem við myndum ráðast í. Það auðveldar mjög framkvæmdina,“ segir forstjóri Landsvirkjunar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Sumarið 2009 fjallaði Stöð 2 um fyrirhugaða Þjórsárbrú í þessari frétt: