Menning

Bókaþjóðin elskar Birgittu

Jakob Bjarnar skrifar
Íslenskir lesendur gleypa í sig bækur Birgittu Haukdal, um Láru og Ljónsa. Nú stefnir í að henni takist að selja 30 þúsund eintök bóka sinna sem er fáheyrt á íslenskum bókamarkaði.
Íslenskir lesendur gleypa í sig bækur Birgittu Haukdal, um Láru og Ljónsa. Nú stefnir í að henni takist að selja 30 þúsund eintök bóka sinna sem er fáheyrt á íslenskum bókamarkaði. Vísir/vilhelm

Salan á barnabókum söngkonunnar Birgittu Haukdal er nú þegar orðin 20 þúsund eintök. Í stefnir að hún muni selja 30 þúsund eintök áður en þessi vertíð er á enda, sem er fáheyrt. Sjálf bókaþjóðin elskar Birgittu.

Birgitta Haukdal hefur tröllriðið bóksölulistum lengi með vinsælum barnabókum sínum. Á síðasta lista, sem birtist í gær, er hún með fjórar bækur á aðallistanum þar sem finna má tuttugu söluhæstu bækur allra flokka: Syngdu jólalög með Láru og Ljónsa, Hrekkjavaka með Láru og Ljónsa, Lára fer í útilegu og Lára fer á skíði. Í flokki barnabóka, 20 efstu, er hún í sérflokki og á 1., 2., 5. og 8. sætið á lista. 

Algjör sprengja

Þetta eru fáheyrðar vinsældir. Þó glæpasögurnar séu áberendi á sölulistum þá er Birgitta með öll trompin og ekki fer hjá því að útgefandi hennar sé kátur.

„Árssalan, til dagsins í dag, er orðin um 20 þúsund eintök og viðbúið að Birgitta rjúfi 30 þúsund eintaka múrinn áður en vertíðin er á enda sem er í einu orði sagt stórkostlegur árangur,“ segir Egill Örn framkvæmdastjóri Forlagsins í samtali við Vísi.

Egill Örn framkvæmdastóri Forlagsins á skrifstofunni. Hann er ánægður með ganginn á sölunni hvað varðar bækur Birgittu.vísir/vilhelm

Egill segir hreinskilnislega að þessar miklu vinsældir hafi komið sér ánægjulega á óvart.

„Ekki óraði mig fyrir því þegar við hófum útgáfu bókanna fyrir 7 árum að árangurinn yrði þessi, enda Birgitta þekkt söngkona en var að stíga sín fyrstu skref sem barnabókahöfundur. Núna er hún iðulega með 3-4 bækur á hverjum einasta metsölulista sem birtur er, ef ekki fleiri.“

Bækurnar um þau Láru og Ljónsa eru orðnar yfir 20, sé allt talið og er, að sögn Egils Arnar, jöfn og þétt sala á öllum bókunum allan ársins hring: „En núna fyrir þessi jól hefur orðið alger sprengja og við erum að prenta hátt í 40 þúsund eintök á árinu, sé allt talið.“

Frægu barnabókahöfundarnir

Úti í hinum stóra heimi er það þekkt fyrirbæri að frægðarfólk sé fengið til að „skrifa“ barnabækur. Útgefendur meta það svo að við það sé hálfur björninn unninn, þetta sé nauðsynlegur liður við kynningu bóka að höfundurinn sé „seljanlegur“. Gagnrýnin er hins vegar sú að þetta þýði að sagan sé hálfgert aukaatriði og minna þekktir höfundar eigi lítinn séns þó þeir séu með gott handrit. Þetta sé hannað af söluglöðum útgefendum. Vísir gerði úttekt á þessu fyrirbæri fyrir fimm árum.

Íslenskir útgefendur hafa fyrir sína parta hafnað þessu verklagi sem leiði til þess að góð handrit lendi í skúffunni meðan þeir eru á útkikkinu eftir nógu frægum höfundum. Og Egill Örn segir spurður algerlega fráleitt að svo í pottinn búið í tilfelli Birgittu.

„Auðvitað hjálpaði það í upphafi að Birgitta er þjóðinni vel kunn, en að lokum eru það að sjálfsögðu bækurnar sem að börnum verður að líka við eigi þetta að geta gengið. Og það er óhætt að segja að þær hafi slegið í gegn, alveg frá því fyrstu bækurnar komu út,“ segir Egill Örn.

Birgitta draumur hvers útgefanda

Og framkvæmdastjórinn bætir því við að Birgitta Haukdal sé í raun draumur hvers útgefanda. Þar sé ekki fyrir að fara neinum stjörnustælum nema síður sé.

Nú er að sjá hvort vinsældir Birgittu ná út fyrir landsteina en tvær bóka hennar hafa nú verið gefnar út á ensku. Þau hjá Forlaginu vonast til þess að það verði upphafði að frekari útrás bókanna um Láru og Ljónsa.

„Já, ég verð að nefna að Birgitta hefur staðið sig alveg frábærlega. Hún er alla daga á ferðinni á milli leik- og grunnskóla í upplestrum og um helgar er hún iðulega í verslunum að árita, lesa og syngja fyrir börn. Hún hefur verið vakin og sofin yfir þessu allan tímann, síðan við byrjuðum á útgáfunni og það hefur verið afskaplega ánægjulegt að vinna með henni.“

Íslenska þjóðin hefur löngum haft Birgittu Haukdal í hávegum, fyrst sem poppstjörnu og svo barnabókahöfund. Fróðlegt verður að sjá hvort hún höfðar til heimsins alls.

„Fyrir skömmu gáfum við út 2 bækur um Láru á ensku og vonandi verður það upphafið að frekari útrás þessara bóka. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig móttökurnar á ensku útgáfum verða,“ segir Egill Örn.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×