Það ætlaði allt um koll að keyra þegar Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í lok síðasta mánaðar á afar viðkvæmum tímapunkti í kjaraviðræðum þáverandi samflots Starfsgreinasambandsins og VR við Samtök atvinnulífsins. VR sleit sig frá viðræðunum og vísaði meðal annars í vaxtahækkunina og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði Seðlabankann hafa skorað sjálfsmark.
Ítarlegt viðtal við Ásgeir má sjá í klippunni að neðan.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir allt benda til þess að ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans hafi verið rétt.
„Við getum ekki látið hagsmunaaðila segja okkur fyrir verkum. Ef við förum þá braut er það hættuleg braut og ég held að það sé mun heiðarlegra að við bregðumst við fyrir samninga heldur en eftir þannig að við séum ekki að koma þeim á óvart.“
Fagnar framlengingu lífskjarasamningsins við SGS
Það sé hlutverk Seðlabankans að tryggja að krónurnar sem samið er um haldi verðgildi sínum.
„Það sem skiptir máli eins og staðan er núna er að við getum ekki séð lækkun vaxta og verðbólgu á sama tíma.“
Hann hefur trú á því að verðbólgan hafi toppað og muni lækka á næsta ári. Kjarasamningar til skamms tíma séu því skiljanlegir og hann telur að staðan í efnahagslífinu verði önnur þegar þeir renna sitt skeið.
„Við fögnum því að lífskjarasamningurinn hafi verið þarna framlengdur. Sá samningur reyndist mjög vel. Skilað miklum ávinningi þannig við fögnum því að það hafi verið gert. Við sjáum að vísu að samningurinn felur í sér að fólk fær hækkanir strax í vasann sem að sumu leyti er þarna skiljanlegt í ljósi þess hvað hefur verið mikil verðbólga. Að því leyti til veltum við því fyrir okkur hvað fólk mun gera við þennan aukna pening en svona almennt séð erum við bjartsýn á að við náum að ná verðbólgu niður eftir áramót og við sjáum aukinn sparnað í efnahagslífinu þarna eftir að jólin eru búin og þetta gangi allt saman upp.“
Fólk viðkvæmt fyrir gagnrýni á utanlandsferðir
Óhætt er að segja að ummæli seðlabankastjóra um að tíðar tásumyndir á Tenerife í sambandi við mikla einkaneyslu landsmanna og þátt hennar í vaxtahækkuninni hafi farið öfugt ofan í marga.
„Fólk er greinilega viðkvæmt fyrir þessu en þetta er samt satt. Einkaneysla er að aukast mjög hratt. Alveg gríðarlega hratt.“
Aðspurður hvort hann sjálfur hafi farið til Tenerife segir Ásgeir svo ekki vera.
„Nei en mér er sagt að það sé ágætt að vera þar. En aldrei farið þangað sjálfur.“