Innlent

Goðsögnin Maggi Pé fallin frá

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Magnús var mikill Þróttari og var einn af stofnendum Skákdeildar Þróttar á sínum tíma.
Magnús var mikill Þróttari og var einn af stofnendum Skákdeildar Þróttar á sínum tíma.

Magnús Vignir Pétursson, kaupmaður og milliríkjadómari í bæði handbolta og knattspyrnu, lést föstudaginn 9. desember 89 ára gamall.

Greint er frá andláti hans í tilkynningu í Morgunblaðinu í dag. Þar segir að Magnús hafi fæðst í Reykjavík á gamlársdag 1932, sonur hjón­anna Pét­urs J. Guðmundssonar, trillukarls í Skerjafirði, og konu hans, Sigurbjargar Jónu Magnúsdóttur, húsfreyju.

Magnús var mikill áhugamaður um íþróttir, grjótharður stuðningsmaður Liverpool og gegnheill Þróttari en hann kom að stofnun félagsins árið 1949. Þá var hann mikill áhugamaður um skák, alltaf í stuði og kjaftaði af honum hver tuska. Hann var af flestum í íþróttaheiminum þekktur sem Maggi Pé.

Í æviágripi Magga í Morgunblaðinu segir:

„Starfs­fer­ill­inn hófst snemma því Magnús tók til starfa sem sendi­sveinn hjá Kaffi Höll átta ára gam­all og varð síðan sendi­sveinn hjá Búnaðarbank­an­um. Hann var versl­un­ar­stjóri hjá KRON við Fálka­götu og síðar sölumaður hjá verk­smiðju Magnús­ar Víg­lunds­son­ar. Árið 1965 stofnaði hann heild­versl­un­ina Hof­fell og rak alla tíð og stofnaði með Valdi­mar syni sín­um knatt­spyrnu­versl­un­ina Jóa Útherja í Ármúla árið 1999. Versl­un­in keypti síðar Hof­fell og Magnús hætti kaup­mennsku þegar Valdi­mar keypti hans hlut í Jóa Útherja fyr­ir um átta árum.

Magnús hóf ung­ur þátt­töku í hand­knatt­leik og knatt­spyrnu með Fram og var síðar einn af stofn­fé­lög­um Þrótt­ar 1949. Hann var einn af for­víg­is­mönn­um skák­æf­inga hjá fé­lag­inu og um tíma formaður brids­deild­ar. Hann var fljót­lega far­inn að þjálfa yngri flokka. Þá var hann formaður hand­knatt­leiks­deild­ar Þrótt­ar í fjög­ur ár. Árið 1950 tók hann dóm­ara­próf í knatt­spyrnu, varð lands­dóm­ari 1956 og alþjóðleg­ur FIFA-dóm­ari 1965. Hann starfaði sem dóm­ari í 30 ár og dæmdi víða um lönd. Magnús dæmdi einnig í hand­knatt­leik og var með alþjóðleg rétt­indi í þeirri grein.

Magnús hef­ur verið sæmd­ur gull­merki Þrótt­ar, KSÍ, HSÍ, ÍBR og KRR fyr­ir störf sín. Hann var út­nefnd­ur heiðurs­fé­lagi Þrótt­ar á síðasta ári. Hann var heiðurs­fé­lagi núm­er 1 í Li­verpool-klúbbn­um.“

Að neðan má sjá viðtal við Magga úr Þróttaravarpinu sem tekið var fyrr á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×