Erlent

Gríðar­legur gáma­veggur veldur usla

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna er ekki sátt við þessa framkvæmd á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna er ekki sátt við þessa framkvæmd á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. AP Photo/Ross D. Franklin

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur stefnt stjórnvöldum í Arisóna-ríki Bandaríkjanna vegna gámaveggs sem komið hefur fyrir á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Gámunum er ætlað að stoppa upp í göt á landamærunum til að hefta för ólöglegra innflytjenda.

Síðastliðinn ágúst fyrirskipaði Doug Ducey, ríkisstjóri Arisóna, starfsmönnum ríkisins að koma fyrir gámavegg á landamærunum, til að fylla upp í göt þar sem umrædd landamæri teljast óvarin.

Þetta gerði hann án formlegs leyfis. Frá því að fyrirskipunin var gefin út hefur dómsmálaráðuneyti alríkisstjórnarinnar í Bandaríkjunum reynt að fá ríkið til að fjarlægja gámana, án árangurs.

Ráðuneytið hefur því leitað til dómstóla og krafist þess að Arisóna-ríki fjarlægi gámana. Heldur ráðuneytið því fram að gámarnir hafi verið settir upp í óleyfi á alríkislandi. Þá hefti gámarnir aðgengi Skógræktar Bandaríkjanna að ýmsum svæðum við landamærin. Að auki hafi ríkisstarfsmenn Arisóna skemmt náttúru svæðisins við vinnuna við uppsetningu gámanna.

Eins og sjá má er veggurinn nokkuð umfangsmikillþAP Photo/Ross D. Franklin

Í svari við fyrirspurn CNN vegna málsins segir embætti ríkisstjóra Arisóna að ríkið sé reiðubúið að vinna með dómsmálaráðuneytinu til að finna lausn á byggingu landamæraveggs.

Eitt helsta kosningamál Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta fyrir forsetakosningarnar þar í landi árið 2016, var bygging landamæraveggs eftir endilöngum landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Lítið varð þó úr þeim áformum í forsetatíð hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×