Körfubolti

Matthías Orri æfir með KR: Endur­koma í kortunum?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Matthías Orri í leik með KR.
Matthías Orri í leik með KR. Vísir/Bára Dröfn

Matthías Orri Sigurðarson hefur verið að æfa með KR að undanförnu samkvæmt heimildum Vísis. Gæti farið svo að hann taki fram skóna til að hjálpa sínum fyrrum félögum í fallbaráttunni í Subway deild karla.

Eftir að verða Íslandsmeistari frá 2014 til 2019 þá hefur heldur betur fjarað undan hlutunum hjá KR. Liðið hefur orðið verra með hverju árinu síðan síðasti Íslandsmeistaratitillinn fór á loft og þá hafa ýmsir hlutir utan vallar haft áhrif á stemninguna í kringum liðið.

Sem stendur er KR á botni Subway deildarinnar og í tómu tjóni. Liðið hefur unnið einn af tíu leikjum sínum í deildinni og skiptir um útlendinga líkt og venjulegt fólk skiptir um nærbuxur.  Sævar Sævarsson, einn af sérfræðingum Körfuboltakvölds, skoraði nýverið á þá Matthías Orra og Brynjar Þór Björnsson að taka fram skóna á nýjan leik og hjálpa sínu gamla félagi. 

Það virðist sem Matthías Orri ætli að taka þeirri áskorun ef marka má heimildir Vísis. Hann hefur allavega sést á æfingum með meistaraflokki KR að undanförnu.

Næsti deildarleikur KR er gegn Stjörnunni þann 29. desember og hver veit nema Matthías Orri Sigurðarson verði á gólfinu frekar en upp í stúku.


Tengdar fréttir

„Fæ ekki nógu mikla ánægju úr þessu“

Útlit er fyrir að einn af bestu leikmönnum Dominos-deildarinnar í körfubolta síðustu ár, hinn 26 ára gamli KR-ingur Matthías Orri Sigurðarson, dragi sig í hlé. Hann segir ástríðuna fyrir körfuboltanum einfaldlega hafa minnkað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×