Handbolti

„Geggjað að vera í liði sem ætlar að vinna alla leiki og það er ekkert annað í boði“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bjarki Már Elísson er að gera gott mót í Ungverjalandi.
Bjarki Már Elísson er að gera gott mót í Ungverjalandi. Veszprem

Það er áþreifanleg pressa að spila fyrir Veszprém sem vill alltaf vinna alla titla segir landsliðsmaðurinn Bjarki Már Elísson. Hann er nú á sínu fyrsta tímabili í Ungverjalandi.

Það er áþreifanleg pressa að spila fyrir Veszprém sem vill alltaf vinna alla titla segir landsliðsmaðurinn Bjarki Már Elísson. Hann er nú á sínu fyrsta tímabili í Ungverjalandi.

„Hún er mjög áþreifanleg, pressan. Það verður ekki annað sagt. Þetta hefur verið geðveikt, hefur lengi dreymt um að spila í Meistaradeildinni og ég vissi alveg að ég gæti það. Maður hefur spilað við mörg af þessum liðum sem eru í Meistaradeild Evrópu, ekkert glænýtt fyrir mér,“ sagði Bjarki Már í ítarlegu viðtali við Stöð 2 og Vísi.

Bjarki Már og Ómar Ingi Magnússon. Sá síðarnefndi er af mörgum talinn með betri leikmönnum heims um þessar mundir.HSÍ

„Maður hefur spilað við flesta af bestu leikmönnum heims áður með landsliðinu sem og í Evrópu með Berlín og Lemgo. Geggjað að vera í liði sem ætlar að vinna alla leiki og það er ekkert annað í boði. Það er erfitt oft andlega en bara gaman og skemmtilegt, ég nýt þess bara.“

Bjarki Már er í fyrsta sinn í langan tíma heima um jólin þar sem hann lék lengi vel í Þýskalandi en þar er spilað yfir hátíðarnar.

„Það eru forréttindi en samt pínu skellur að vera útrétta allan daginn. Ég var laus við þetta stress úti en nú er ég kominn beint í það. Maður nýtur þess að vera heima, heima er best.“

Það gekk ekki áfallalaust fyrir sig að komast alla leið heim þar sem veðrið setti strik í reikninginn.

„Þetta var ekkert sérstakt ferðalag. Maður hefur oft lent á Íslandi í verra veðri svo maður bjóst ekki við neinum slæmum fréttum en svo kveikir maður á símanum og sér að allir vegir eru lokaðir sem og öll hótel fullbókuð í Keflavík.“

„Við enduðum á að rúnta um Keflavík í 5-6 tíma og skoða það ágæta bæjarfélag. Endum svo í hjálparmiðstöð Rauða Krossins, sem var frábær aðstaða. Pantaðar pizzur, það var WiFi og stelpan mín gat leikið sér en sem betur við komumst við heim um kvöldið,“ sagði Bjarki Már Elísson að endingu að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×