Arnar Þór var í ítarlegu viðtali á Morgunblaðinu þar sem hann fór yfir hvað hefur drifið á daga sína síðan hann tók við landsliðinu. Hann fer yfir gagnrýnina sem liðið, og spilamennska þess, hefur fengið sem og hvernig fyrirsagnir hjá fjölmiðlum eru settar upp.
„Hef ekkert á móti gagnrýni ef það er einhver þekking á bak við hana,“ segirArnar Þór í viðtali sínu við Morgunblaðið. Hann segir þó að slík gagnrýni verði að vera málefnaleg.
Það hefur gengið á ýmsu hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu síðan Arnar Þór Viðarsson tók við þjálfun liðsins í desember árið 2020 en þjálfarinn hefur fengið sinn skerf af gagnrýni síðan hann tók við liðinu. https://t.co/wUvP57OvlE
— mbl.is SPORT (@mblsport) December 24, 2022
„Því miður er það þannig í dag, í samfélaginu sem við búum í, að gagnrýnin er oft byggð á tilfinningum eða einhverju öðru undirliggjandi.“ Slíkri gagnrýni segist Arnar Þór ekki geta tekið alvarlega.
Arnar Þór fer einnig yfir breytingar á landsliðshópnum og nefnir að undir lok síðasta árs hafi leikmenn með samtals í kringum 700 A-landsleiki horfið á braut. Hann nefnir að það taki leikmann um áratug að safna 70 A-landsleikjum: „Þeir sem kunna að reikna og skilja fótbolta gera sér grein fyrir því að verkefnið hefur verið ansi stórt.“
Þá tjáir landsliðsþjálfarinn sig um fyrirsagnir fjölmiðla og segir að neikvæðar fyrirsagnir selji einfaldlega betur en jákvæðar.
Viðtalið í heild sinni má finna í Morgunblaðinu en búta úr því má lesa á íþróttavef mbl.is.