Pavlo Kyrylenko, ríkisstjóri í Donetsk, sagði í gær að meira en 60 prósent allra innviða í Bakhmut hefðu verið skemmd eða eyðilögð. Borgin sætti stöðugum árásum Rússa, sem viðhefði nú þá aðferðafræði að skilja eftir sig sviðna jörð.
Úkraínsk hermálayfirvöld segja tugir bæja í Donetsk, Luhansk, Kherson og Zaporizhzhia hafa sætt skotárásum síðustu daga. Um er að ræða héruð sem Rússar „innlimuðu“ fyrr á árinu, án þess að hafa þau fullkomlega á valdi sínu.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sakaði Bandaríkin og bandamenn þeirra innan Atlantshafsbandalagsins í gær um að vilja sigra Rússa á vígvellinum, með það að markmiði að tortíma Rússlandi.
Þá kallaði hann eftir því í viðtali við ríkisfréttastofuna Tass að Vesturlönd sýndu sjálfstjórn hvað varðar notkun kjarnorkuvopna.
Þess þarf vart að geta að það voru Rússar sem réðust inn í Úkraínu og stofnuðu þannig til átaka og að það eru þeir en ekki stjórnvöld á Vesturlöndum sem hafa haft í hótunum um notkun kjarnorkuvopna.