Þetta eru niðurstöður rannsóknar Aberdeen University Business School og samtakanna Transform Trade.
Rannsóknin náði til þúsund verksmiðja, þar sem stjórnendur sögðust enn vera að fá sömu upphæðir fyrir vörur og fyrir kórónuveirufaraldurinn, þrátt fyrir gríðarlega hækkun framleiðslukostnaðar.
Einn af hverjum fimm sagðist eiga í erfiðleikum með að greiða starfsmönnum sínum lágmarkslaun; rúm tvö pund fyrir daginn.
Samkvæmt rannsókninni voru 90 prósent af stærri tískuvörumerkjum sem keyptu fatnað frá fjórum eða fleiri verksmiðjum sögð stunda óheiðarlega viðskiptahætti. Þar á meðal afpantanir, tafir á greiðslum og kröfur um afslátt.
Þá greiddu sumir alls ekki fyrir þær vörur sem þeir pöntuðu.
Muhammad Azizul Islam, prófessor við Aberdeen University, segir starfsmenn verksmiðjanna í Bangladesh ekki fá nóg greitt til að fæða sig og klæða, á sama tíma og hagnaður tískufyrirtækjanna hafi aukist. Hann segir stærri fyrirtækin verri en þau minni hvað varðar óheiðarlega viðskiptahætti.
Allt að 85 prósent af útflutningstekjum Bangladesh eru tilkomnar vegna fataiðnaðarins og fleiri en 12 milljónir íbúa eru taldir eiga lífsviðurværi sitt undir iðnaðinum. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að um 25 prósent verkafólks hafi misst vinnuna í kórónuveirufaraldrinum.
Fiona Gooch, hjá Transform Trade, segir niðurstöðurnar „vakningu“; vanefndir viðskiptavina komi harðast niður á starfsfólki verksmiðjanna. Hún kallar eftir eftirliti með viðskiptaháttum fataiðnaðarins á Bretlandseyjum.