Fótbolti

Fjórir þjálfarar úr banda­rísku kvenna­deildinni í ævi­langt bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Riley, fyrrum þjálfari Portland Thorns, er einn þeirra sem má ekki þjálfa aftur í bandarísku kvennadeildinni.
Paul Riley, fyrrum þjálfari Portland Thorns, er einn þeirra sem má ekki þjálfa aftur í bandarísku kvennadeildinni. Getty/Bryan Byerly

Bandaríska kvennadeildin í fótbolta, NWSL, hefur dæmt fjóra fyrrum þjálfara í deildinni í ævilangt bann í kjölfar rannsóknar á kynferðisbrotum og eða harðstjórn í þeirra þjálfaratíð.

Þjálfarnir eru Paul Riley, Christy Holly, Rory Dames og Richie Burke.

Jessica Berman, yfirmaður deildarinnar, tilkynnti um bannið í gær eftir að NWSL-deildin og leikmannasamtökin höfðu sameinast við gerð útgáfu rannsóknarskýrslu um málið.

Málið kom upp árið 2021 og skrifaði The Athletic stóra grein um málið sem varð til þess að fimm karlkyns þjálfarar í deildinni voru reknir eða þvingaðir til að segja af sér. Sjötta félagið sagði einnig upp framkvæmdastjóra sínum.

Þjálfararnir voru sekir um kynferðisbrot, svívirðingar, kynþáttafordóma eða að stuðla að eitraðri menningu innan síns liðs.

Félög þar sem þessi ógeðslega menning grasseraði voru Portland Thorns, Chicago Red Stars, North Carolina Courage, Houston Dash, OL Reign, Orlando Pride og NY/NJ Gotham FC.

Paul Riley var hjá Portland Thorns og Dames hjá Chicago Red Stars en bæði félögin fengu auk þess stóra sekt vegna þess sem var leyft að viðgangast innan þeirra raða.

Craig Harrington, fyrrum þjálfari Utah Royals FC, og Alyse LaHue, fyrrum framkvæmdastjóri Gotham, fengu tveggja ára bann. Þjálfararnir James Clarkson hjá Houston Dash og Amanda Cromwell hjá Orlando Pride mega snúa til baka en aðeins eftir að þau hafa lokið hegðunarnámskeiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×