Innlent

Hjúkrunar­fræðingurinn segist sak­laus um mann­dráp

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Vísir/Vilhelm

Hjúkrunarfræðingur á geðdeild Landspítala sem sætir ákæru fyrir manndráp og brot í opinberu starfi neitaði sök við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur á öðrum tímanum.

Málið kom upp í ágúst í fyrra þegar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu þess efnis að talið væri að andlát sjúklings hefði borið að með saknæmum hætti. Hjúkrunarfræðingnum er gefið að sök að hafa banað sjúklingnum með því að neyða mat ofan í viðkomandi.

Hjúkrunarfræðingurinn var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur á grundvelli rannsóknarhagsmuna þegar málið kom upp. Landsréttur felldi þann úrskurð úr gildi og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að hafa konuna áfram í haldi vegna rannsóknarhagsmuna.

Fram kom í máli Sigríðar Hjaltested, dómara í málinu, að hún reiknaði með því að dómurinn yrði fjölskipaður. Þar yrði einhver fulltrúi á sviði bráðalækninga. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi hjúkrunarfræðingsins, lagði til að hjúkrunarfræðingur yrði í fjölskipuðum dómi.

Þá gerði Vilhjálmur kröfu um að einkaréttakröfu í málinu yrði vísað frá dómi.

Fyrirtaka er fyrirhuguð í málinu þann 30. janúar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×