Fótbolti

Svava Rós í raðir Gotham

Sindri Sverrisson skrifar
Svava Rós Guðmundsdóttir á ferðinni á EM í fyrra. Hún átti frábært ár í Noregi en mun á þessu ári spila í Bandaríkjunum.
Svava Rós Guðmundsdóttir á ferðinni á EM í fyrra. Hún átti frábært ár í Noregi en mun á þessu ári spila í Bandaríkjunum. VÍSIR/VILHELM

Svava Rós Guðmundsdóttir, landsliðskona í fótbolta, var í dag kynnt sem nýjasti leikmaður bandaríska félagsins Gotham sem er með bækistöðvar sínar í New Jersey.

Gotham var áður þekkt sem Jersey Sky Blue og er eitt af stofnfélögum NWSL-deildarinnar sem er ein besta atvinnumannadeild heims.

Liðið olli vonbrigðum á síðustu leiktíð og hafnaði í 12. og neðsta sæti, en eftir tímabilið var Spánverjinn Juan Carlos Amorós ráðinn þjálfari þess. Amorós hefur áður meðal annars stýrt Tottenham á Englandi í tæpan áratug en hann kom til Gotham eftir að hafa stýrt Houston Dash til bráðabirgða seinni hluta síðustu leiktíðar.

Svava kemur til Bandaríkjanna eftir frábæra leiktíð í Noregi þar sem hún varð tvöfaldur meistari með Brann.

Svövu, sem er 27 ára gömul, er eflaust ætlað að bæta úr markaleysi Gotham-liðsins en það skoraði aðeins 16 mörk í 22 deildarleikjum á síðustu leiktíð og voru markahæstu leikmenn liðsins með þrjú mörk hver.

Svava, sem á að baki 42 A-landsleiki, hóf meistaraflokksferil sinn með Val en lék einnig með Breiðabliki hér á landi áður en hún flutti til Noregs til að spila með Röa árið 2018. Hún lék svo einnig í tvö ár með Kristianstad í Svíþjóð og var í eitt ár hjá Bordeaux í Frakklandi áður en hún kom til Brann fyrir síðustu leiktíð.

Með tilkomu Svövu verður áfram að minnsta kosti einn Íslendingur í bandarísku úrvalsdeildinni þrátt fyrir að Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir hafi í vikunni kvatt Orlando Pride og komið heim til Stjörnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×