Skoðun

Nýjar upp­lýsingar um er­lenda net­verslun lands­manna

Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir skrifar

Lengi hefur verið skortur á upplýsingum um erlenda netverslun landsmanna en mikið hefur verið leitað til Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV) eftir þeim upplýsingum. Undanfarið árið hefur RSV unnið að því, í samstarfi við tollsviði Skattsins, að greina pakkasendingar einstaklinga til landsins sem skilgreina má sem erlenda netverslun. Í kjölfarið kynnir rannsóknasetrið nú til leiks Netverslunarvísi RSV.

Upplýsingar RSV um erlenda netverslun eru fengnar mánaðarlega frá tollasviði Skattsins. Út frá þeim upplýsingum reiknar RSV vísitölu erlendrar netverslunar, Netverslunarvísi RSV, en hún sýnir breytingu á umfangi erlendrar netverslunar á milli mánaða eftir tegundum verslunar og viðskiptalöndum. Auk þess birtir RSV mánaðarlega upplýsingar um umfang erlendrar netverslunar eftir tegundum verslunar og viðskiptalöndum. Tilgangurinn er að meta umfang og fylgjast með þróun erlendrar netverslunar landsmanna. Upplýsingarnar eru mikilvægur þáttur í að greina neysluhegðun einstaklinga og geta þær gagnast verslunum og fyrirtækjum í landinu til að meta stöðu sína gangvart erlendu vöruframboði og samkeppni.

Erlend netverslun með fatnað nam rúma 11,3 milljörðum kr.

Þegar við rýnum í upplýsingar RSV um erlenda netverslun árið 2022 kemur m.a. í ljós að landsmenn pöntuðu fatnað frá erlendum netverslunum fyrir rúma 11,3 milljarða kr. í fyrra á meðan innlend netverslun með fatnað nam tæpum 3,5 milljörðum kr. Þá pöntuðu landsmenn raf- og heimilistæki frá erlendum netverslunum fyrir rúman milljarð kr. í fyrra á meðan innlend netverslun með raf- og heimilistæki nam rúmlega 6 milljörðum kr. Upplýsingar RSV um erlenda netverslun segja okkur jafnframt að Kína er lang stærsta viðskiptaland landsmanna þegar kemur að erlendri netverslun næst koma Bandaríkin og Bretland þar næst á eftir.

Meðfylgjandi mynd sýnir umfang innlendrar og erlendrar netverslunar árið 2022 eftir tegundum verslunar. Upplýsingar RSV um innlenda netverslun koma úr gögnum RSV um greiðslukortaveltu innanlands.

Það er óumdeilt að góðar ákvarðanir eru teknar á grundvelli góðra upplýsinga og gagna er málefnið varða. Upplýsingar um erlenda netverslun eru aðgengilegar á notendavef RSV (www.sarpur.rsv.is) auk allra upplýsinga um gagnasafnið og aðferðafræðina. Þar má einnig nálgast allar helstu tölfræðiupplýsingar, kortaveltugögn, vísitölur, rannsóknir og greiningar er varða verslun og þjónustu í landinu. Netverslunarvísir RSV og tölfræði um erlenda netverslun er uppfærð mánaðarlega á notendavef RSV og er viðmiðunartími birtingarupplýsinga næstliðinn mánuður.

Höfundur er forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV).




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×