Seðlaröðin var fyrst sett í umferð eftir gjaldmiðlabreytinguna árið 1981, þegar verðgildi krónunnar var hundraðfaldað.
Ásgeir er 20. seðlabankastjórinn sem á undirritun á íslenskum peningaseðlum en um er að ræða eitt af öryggisatriðum seðlanna. Meðal hinna eru andlit Jóns Sigurðssonar í formi vatnsmerkis, öryggisþráður úr málmi, sjálflýsandi númer og myndir sem koma í ljós undir útfjólubláu ljósi, örletur af ýmsu tagi og þá er málmþynna á sumum seðlum, öryggisþráður með texta, vatnsmerki í hornum og blindramerki.
„Nú eru um 80 milljarðar króna í umferð af seðlum og mynt. Af því eru tæplega 50 milljarðar í tíu þúsund króna seðlum. Af mynt eru 4,5 milljarðar króna í umferð. Fjárhæðir seðla sem eru í umferð eru 10.000 krónur, 5.000 krónur, 2.000 krónur, 1.000 krónur og 500 krónur. Tvö þúsund króna seðillinn hefur ekki verið prentaður og settur í umferð lengi. Hann er enn í fullu gildi en tiltölulega lítið er af honum í umferð,“ segir í tilkynningu á vef Seðlabankans.
Á sama tíma fara vel yfir 98 prósent smásöluviðskipta fram með rafrænum hætti hjá þeim sem versla vikulega eða oftar.
„Eftir sem áður hefur hlutur seðla og myntar í umferð verið lítt breyttur sem hlutfall af landsframleiðslu síðasta áratug, eða á bilinu 2-2,5%. Þetta hlutfall er með því lægsta sem þekkist, en var þó enn lægra í tvo áratugi fyrir bankahrunið, eða um 1%. Í hruninu tvöfaldaðist reiðufé í umferð, en slíkt gerist oft á óvissutímum. Enn fremur er líklegt að aukinn straumur ferðamanna til Íslands síðasta áratuginn hafi leitt til aukningar reiðufjár í umferð.“