Hildur og samastarfsmenn hennar fylgdust með eldinum breiða úr sér á ógnarhraða. Hún segir atburðarásina hafa verið afar óhugnanlega.
„Fyrst sáum við bara svartar rúður,“ segir Hildur. „Síðan sáum við bara að það fer að loga inni fyrir glugga og síðan springa rúðurnar og eldurinn gýs upp á ógnarhraða.“
Hildur og samstarfsmenn urðu síðan vör við það þegar fólk yfirgaf húsið sunnanmegin. Hún segir fólk hafa verið skelfingu lostið.
Áhyggjur hafi verið uppi um brunavarnir í húsnæðinu.
„Við höfum líka orðið vör við að þarna hafa því miður verið einstaklingar sem eru í neyslu. Við höfum orðið vör við að þau fara hinum megin við húsið hjá okkur og eru að neyta þar fíkniefna. Þannig að við höfum þurft að senda inn ábendingar til lögreglu.“
Þá hafi komið upp atvik þar sem farið hafi verið inn hjá Iðunni og stolið.
Ábending um mögulegan skort á brunavörnum hafi síðast verið sendar inn til slökkviliðsins 12. janúar síðastliðinn.
„Við höfum til dæmis upplifað það að það var kveikt í gínu og henni hent út um gluggann, þannig að vissulega er þetta bara ógn við öryggi bæði þeirra viðskiptavina sem koma til okkar sem og starfsmanna hér hjá Iðunni,“ segir Hildur.
