Eldur kviknaði í húsnæði áfangaheimilisins Betra lífs föstudaginn 17. febrúar, þar sem um þrjátíu manns voru búsettir.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins gerði eldvarnaskoðun í húsnæðinu áttunda febrúar, tíu dögum áður en bruninn varð. Slökkviliðið segir í skýrslu sinni, sem fréttastofa hefur undir höndum og dagsett er daginn eftir brunann 18. febrúar, að húsnæðið sé ekki hannað fyrir starfsemi áfangaheimilis. Þá sé brunavörnum og öðrum öryggisþáttum húsnæðisins verulega ábótavant og notkun húsnæðisins í þáverandi ástandi teljist „sérlega hættuleg“.
Brunahólfun í ólagi og íkveikjuhætta af rusli

Fjöldi ágalla á brunavörnum er talinn upp í skýrslunni, meðal annars að brunahólfun herbergja hafi ekki verið í lagi, brunaviðvörunarkerfi óvirkt og sýndi bilun, reykskynjarar huldir með hönskum og límbandi, flóttaleiðir ekki í lagi og húsnæði ekki í samræmi við teikningar. Um alvarlegt brot á lögum um brunavarnir og byggingarreglugerð sé að ræða og slökkvistjóri varar við lokun húsnæðisins.
„Húsnæðið er ekki í samræmi við samþykktar teikningar sbr. reglugerð 112/2012. Teikning í gildi er frá 1991. Húsnæði hefur verið mikið breytt síðan. Starfsemi og notkun er ekki í samræmi við það sem húsnæði var hannað og byggt fyrir. Engin hönnun virðist liggja fyrir þeim breytingum sem gerðar hafa verið,“ segir meðal annars í skoðunarskýrslu slökkviliðsins.
Til að komast hjá lokun þurfi að fá húsnæðið samþykkt af byggingafulltrúa til þeirra nota sem fyrirhuguð er. Þá þurfi að fá öryggis- og/eða lokaúttektarvottorð byggingarfulltrúa áður en húsnæðið verður tekið í notkun á ný.

Viðvörun um lokun afhent í gær
Þá er ferill málsins einnig rakinn en í byrjun janúar barst slökkviliði ábending í síma um að í húsnæðinu væri búseta og fíkniefnaneysla. Um mánuði síðar, í byrjun febrúar, óskaði lögregla eftir því að slökkvilið færi í skoðun á staðinn vegna fjölda útkalla og gruns um lélegar brunavarnir.
Fundað var um fyrirhugaða lokun 14. febrúar en eldur kviknaði svo þremur dögum síðar, þann 17. Viðvörun um lokun var afhent eiganda í gær, 20. febrúar.