Eftir innrás Rússa og innlimun þeirra á Krímskaga árið 2014 mynduðu níu aðildarríki NATO í austur Evrópu leiðtogahóp til að samhæfa aðgerðir sínar. Joe Biden fundaði með hópnum í Varsjá höfuðborg Póllands í dag.

Zuzana Čaputová forseti Slóvakíu sagði undanfarið ár hafa styrkt samstöðu NATO-ríkjanna og gert þau sterkari.
„Þetta ár hefur styrkt okkur og sameinað. Og við, löndin á austurvængnum, erum betur varin en nokkru sinni fyrr. Við höfum í sameiningu staðist próf samstöðu og mannúðar með því að hjálpa Úkraínu,“ sagði Čaputová.

Joe Biden forseti Bandaríkjanna þakkaði Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra NATO fyrir frábæra forystu og sagði mikilvægara nú en nokkru sinni bandalagsríkin í austri stæðu þétt saman.
„Þið eruð framlínan í sameiginlegum vörnum okkar. Þið vitið betur en nokkur annar hvað er í húfi í þessum átökum, ekki bara fyrir Úkraínu heldur fyrir frelsi lýðræðisríkja í Evrópu og heiminum öllum," sagði Biden í upphafi fundar.
Frétt Stöðvar 2:
Wang Yi framkvæmdastjóri utanríkismálanefndar kínverska Kommúnistaflokksins fundaði með Pútín og Sergey Lavrov utanríkisráðherra Rússlands í dag. Rússar hafa reynt að fá aukinn stuðning og vopnasendingar frá Kínverjum. Þeir hafa hingað til látið volgar stuðningsyfirlýsingar nægja, og svo var að heyra í dag að engin breyting yrði þar á.
„Við erum tilbúnir að vinna með Rússlandi að því að viðhalda stefnumótandi áherslum, dýpka gagnkvæmt pólitískt traust, styrkja stefnumótandi samvinnu, útfæra alhliða hagnýta samvinnu og verja lögmæt réttindi og hagsmuni ríkja okkar,“ sagði Wang Yi.

Pútín mætti síðan glaðbeittur á hyllingarsamkomu með hópi stuðningsmanna í Moskvu í dag sem haldin var í aðdraganda hátíðardags Verjenda móðurlandsins. Slegið var á sterka þjóðernisstrengi á samkomunni og þjóðsöngurinn sunginn af öllum viðstöddum.
„Þegar við stöndum saman eigum við enga okkar líka! Fyrir einingu rússnesku þjóðarinnar! Húrra! -Húrra,“ kallaði Pútín til mannfjöldans og hrópaði svo Rússland, Rússland og þúsundir viðstaddra tóku undir.