Viðskipti innlent

Naustið selt

Bjarki Sigurðsson skrifar
Naustið stendur við Tryggvagötu.
Naustið stendur við Tryggvagötu. Vísir/Vilhelm

Húsið sem áður hýsti veitingastaðinn Naustið við Vesturgötu í Reykjavík hefur verið selt. Seljandinn segist hafa þurft að bíða í nokkur ár eftir rétta kaupandanum. 

Veitingastaðurinn Naustið var stofnaður árið 1954 af Halldóri S. Gröndal en árið 1994 tók Karl J. Steingrímsson, oftast þekktur sem Kalli í Pelsinum, við rekstrinum. Veitingastaðurinn lifði góðu lífi í rúmlega fimmtíu ár en honum var lokað árið 2006.

Húsið hefur verið autt í nokkur ár en nýlega keypti Hollendingurinn Klaas Hol það af Karli. Klaas hefur á síðustu tíu árum keypt níutíu prósent í Svörtu perlunni, hóteli sem staðsett er á bak við Naustið. Karl segist í samtali við fréttastofu ekki vita hvaða rekstur Klaas mun hafa í húsinu. Hann treysti honum þó hundrað prósent. 

„Þetta er afskaplega vandaður maður og hann fer voðalega leynt með hvað hann er að gera en hann er að teikna á fullu. En þetta verður mjög flott. Ég hefði ekki selt neinum nema honum. Við erum búin að eiga í samskiptum í tíu ár og hann er svo nákvæmur í öllu sem hann gerir,“ segir Karl.

Hann segist hafa þurft að vanda valið á nýjum eigenda mjög vel enda gæti ekki hver sem er verið með rekstur þarna. 

„Þetta er svo flott starfsemi þarna þannig ekki hefði ég viljað að það opnaði næturklúbbur þarna eða einhver leiðindastaður,“ segir Karl. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×