Innlent

Katrín og Þórdís Kolbrún á leið til Úkraínu

Heimir Már Pétursson skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherraog Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir er á leið til fundar við Volodymyr Zelensky forseta Úkraínu. Þau eiga fund á morgun.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherraog Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir er á leið til fundar við Volodymyr Zelensky forseta Úkraínu. Þau eiga fund á morgun. Grafík/Hjalti

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra eru á leið til Kænugarðs í Úkraína til fundar við Volodymyr Zelensky forseta landsins og aðra ráðamenn. Meðal annars verður rætt um þátttöku Úkraínu á leiðtogafundi Evrópuráðsríkja sem fram fer í Reykjavík í maí.

Mikil leynd hvílir jafnan yfir ferð erlendra ráðamanna til Úkraínu af augljósum ástæðum. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra verða á ferðalagi í allan dag og kvöld en þær halda til Úkraínu frá Póllandi í dag.

Megin tilgangur ferðarinnar er að ítreka áframhaldandi stuðning og samstöðu Íslands með Úkraínu í vörnum landsins gegn ólöglegri innrás Rússa. Þær Katrín og Þórdís Kolbrún eiga fund með Volodymyr Zelensky forseta Úkraínu og fleiri ráðamönnum landsins á morgun.

Katrín Jakobsdóttir og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir funda með Volodymyr Zelensky og fleiri ráðamönnum í Kænugarði á morgun. Hér er brak af rússneskum skriðdrekum við torg heilags Michaels við dómkirkjuna í miðborg Kænugarðs.AP/Andrew Kravchenko

Ísland fer nú með formennsku í Evrópuráðinu og stendur fyrir stærsta leiðtogafundi sem haldinn hefur verið hér á landi í maí næstkomandi. Málefni Úkraínu verða efst á dagskráfundarins og munu Katrín og Þórdís Kolbrún ræða þátt landsins á fundinum við Zelensky. Reiknað er með tugum leiðtoga Evrópuráðsríkjanna hingað til lands dagana 16. til 17. maí þegar leiðtogafundurinn fer fram í Hörpu.

Gífurlegar öryggisráðstafanir verða vegna fundarins og hafa íslensk stjórnvöld meðal annars óskað eftir liðsinni erlendra lögregluyfirvalda vegna hans.

Dagskrá funda forsætisráðherra og utanríkisráðherra í Kænugarði á morgun liggur ekki fyrir en þeir hefjast fyrst í fyrramálið. Fréttamenn Ríkisútvarpsins eru með í för en munu deila öllu mynd - og viðtalsefni með öðrum íslenskum fjölmiðlum.


Tengdar fréttir

Segja rússneska björninn búinn á því

Avril D. Haines, æðsti yfirmaður leyniþjónustusamfélags Bandaríkjanna, sagði bandarískum öldungadeildarþingmönnum í dag að rússneski herinn hefði líklega ekki burði til að leggja undir sig mikið meira landsvæði í Úkraínu á þessu ári. Þess í stað séu þeir líklegir til að byggja upp varnir og reyna að halda þeim svæðum sem þeir hafa náð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×