Donni hafði ekki spilað með PAUC síðan hann lék gegn Val hér á landi fyrir tæpum mánuði síðan. Hann sagði við Vísi að um kulnun í starfi að væri að ræða og að hann þyrfti pásu. Samkvæmt Handbolti.is leitaði Donni sér í kjölfarið aðstoðar vegna andlegs álags.
Samband hans og þjálfara liðsins, Thierry Anti, var stirt og hafði áhrif á andlega heilsu Donna. Anti var látinn fara fyrir tveimur vikum og nú er Donni mættur aftur. Sem betur fer enda gengi liðsins ekki verið upp á marga fiska undanfarið.
Liðið mátti þola enn eitt tapið í kvöld. Að þessu sinni fjögurra marka tap gegn Saint-Raphaël, lokatölur 24-28. Jákvæðu fréttirnar fyrir PAUC eru þær að Donni sneri aftur í kvöld og var markahæsti maður liðsins með 5 mörk.
PAUC er í 10. sæti deildarinnar, af 16 liðum, með 17 stig að loknum 20 leikjum. Liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu 8 leikjum í öllum keppnum.