Innlent

Vildi ekki svara því hvort hann hefði verið á Bankastræti Club

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sakborningar huldu sumir hverjir höfuð sín þegar þeir mættu í dómsal í morgun.
Sakborningar huldu sumir hverjir höfuð sín þegar þeir mættu í dómsal í morgun. Vísir

Þingfestingu í Bankastræti Club málinu var framhaldið eftir hádegi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Fimm karlmenn til viðbótar komu fyrir dóminn og neituðu allir sök í málinu. Einn ákærðu vildi ekki svara spurningunni hvort hann hefði verið á skemmtistaðnum umrætt kvöld.

Alls eru 25 ákærðir í málinu og vegna fjöldans fer þingfestingin í dag fram í hollum.

Málið varðar líkamsárás sem framin var fimmtudagskvöldið 17. nóvember í fyrra á skemmtistaðnum Bankastræti Club við Bankastræti 5 í miðbæ Reykjavíkur. Hópur manna réðst þá inn á skemmtistaðinn og niður í kjallara hans þar sem þrír menn voru saman komnir. Þeir réðust að mönnunum þremur og veittu þeim mikla áverka en atvikið náðist á upptöku öryggismyndavélar.

Fimm karlmenn á aldrinum 22 til 24 ára komu fyrir dóminn í öðru hollinu áður en gert var hádegishlé. Allir fimm eru ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás.

Þeir höfnuðu allir bótakröfu þeirra þriggja sem slösuðust í árásinni og mótmæltu sumir því að afleiðingar árásarinnar væru þeim að kenna. Þá vildi einn þeirra ekki svara því hvort hann hefði verið á skemmtistaðnum umrætt kvöld.

Þá gaf dómari verjendum í málinu viðmiðunardagsetninguna 19. júní til að skila greinargerðum í málinu.


Tengdar fréttir

Með lamb­hús­hettu í dóm­sal

Ákæra gegn 25 mönnum vegna líkamsárásar á Bankastræti Club í nóvember verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Vegna þess fjölda sem er ákærður í málinu fer þingfesting fram í fjórum hollum og verða sex til sjö leiddir fyrir dómara í einu. Hinir ákærðu huldu andlit sín, meðal annars með lambhúshettu, áður en þingsal var lokað.

Þing­festa á­kæru gegn 25 mönnum vegna á­rásarinnar á Banka­stræti Club

Ákæra á hendur 25 karlmönnum á aldrinum átján til 36 ára vegna árásarinnar á skemmtistaðnum Bankastræti Club í nóvember verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Nítján ára karlmaður er ákærður fyrir tilraun til manndráps og tíu félagar hans fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×