Erlent

ESB lætur undan Þjóðverjum með bann við bensín- og dísilbílum

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona dælir bensíni á bíl í Portúgal. ESB ætlar að banna sölu nýrra jarðefniseldsneytisbíla í álfunni frá árinu 2035.
Kona dælir bensíni á bíl í Portúgal. ESB ætlar að banna sölu nýrra jarðefniseldsneytisbíla í álfunni frá árinu 2035. Vísir/Getty

Evrópusambandið og Þýskaland hafa náð samkomulagi um framtíð jarðefnaeldsneytisbíla í Evrópu. Þjóðverjar fá í gegn að undantekningar verði á banni við sölu á nýjum bensín- og dísilknúnum bílum eftir árið 2035. Umhverfissamtök fordæma málamiðlunina.

Bann við sölu nýrra jarðefnaeldsneytisknúinn bifreiða á að taka gildi í Evrópu árið 2035 sem liður í markmiði Evrópusambandsins um að ná kolefnishlutleysi fyrir miðja öldina. Rétt áður en greiða átti atkvæði um endanlega útgáfu bannsins settu þýsk stjórnvöld fram kröfu um sala á bílum með brunahreyflum verði áfram leyfileg ef þeir ganga fyrir svonefndu rafeldsneyti. Bílaiðnaðurinn í Þýskalandi er sagður styðja þá hugmynd.

Samkomulag um málamiðlun náðist á föstudag. Volker Wissing, samgönguráðherra Þýskalands, sagði að sala á bílum með brunahreyfla verði leyfð eftir 2035 svo lengi sem bílarnir ganga eingöngu fyrir kolefnishlutlausu eldsneyti, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Atkvæðagreiðsla um bannið á að fara fram á morgun, að sögn Svía sem fara nú með formennsku í Evrópuráðinu. Bannið gæti þá öðlast gildi á þriðjudag.

Rafeldsneyti er blanda af vetni sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum og fönguðum koltvísýringi. Bruni á rafeldsneyti losar koltvísýring út í andrúmsloftið. Eldsneytið á hins vegar að vera kolefnishlutlaust þar sem losunin á að vera jöfn magninu sem var fangað til þess að framleiða eldsneytið.

Grænfriðungar fordæmdu málamiðlun ESB og Þýskalands og lýstu henni sem bakslagi fyrir loftslagsaðgerðir.

„Þetta daunilla samkomulag grefur undan vernd loftslagsins í samgöngum og það skaðar Evrópu,“ sagði Benjamin Stephan, talsmaður samtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×