Innlent

Eftirlýstur reyndi að hlaupa frá lögreglu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Manninum tókst ekki að komast undan.
Manninum tókst ekki að komast undan. Vísir/Kolbeinn Tumi

Ökumaður reyndi að flýja lögreglu á bifreið sinni í gærkvöldi en þegar það gekk ekki fór hann úr bílnum og reyndi að komast burt á hlaupum. Það tókst honum ekki og voru bæði hann og farþegi bifreiðarinnar handteknir grunaðir um að selja fíkniefni en töluvert magn þeirra fundust í fórum þeirra ásamt fjármunum sem taldir eru vera hagnaður af sölu. Þá reyndist ökumaðurinn einnig vera eftirlýstur.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem er farið yfir erindi gærkvöldsins frá klukkan fimm til klukkan fimm í nótt. 

Í umdæmi lögreglustöðvar eitt, sem sér um Austurbæ, Miðbæ, Vesturbæ Reykjavíkur og Seltjarnarnes, var tilkynnt um líkamsárás í verslunarkjarna. Gerendurnir eru sagðir tveir en voru farnir af vettvangi þegar lögregla mætti á staðinn. 

Þá var einstaklingur handtekinn á veitingastað í Miðbænum, grunaður um að hafa rænt annan gest. Var hann vistaður í fangelsi en er hann grunaður um að hafa beitt gestinn ofbeldi til þess að komast yfir fjármuni hans. 

Í umdæmi lögreglustöðvar 3, sem sér um Kópavog og Breiðholt, var tilkynnt um ölvaðan ökumann. Fann lögregla bifreið mannsins og reyndi að fá hann til að stöðva með ljósum og hljóðmerkjum. Það gekk ekki heldur ók maðurinn áfram en var síðar handtekinn á heimili sínu. Reyndist hann mjög ölvaður og var færður á lögreglustöð í sýnatöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×