Erlent

Loftvarnaflautur þeyttar á Hokkaido

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Öllum íbúum Hokkaido var gert að koma sér í skjól í nótt. 
Öllum íbúum Hokkaido var gert að koma sér í skjól í nótt.  AP Photo/Lee Jin-man

Enn eitt eldflaugaskotið frá Norður-Kóreu varð til þess að íbúum á japönsku eyjunni Hokkaido var gert að yfirgefa heimili sín í nótt.

Loftvarnarflautur voru þeyttar á eyjunni og öllum sagt að leita skjóls en viðvörunin var dregin til baka um hálftíma síðar eftir að í ljós kom að um tilraunaskot var að ræða. Hokkaido er næst stærsta eyja Japans og þar búa rúmar fimm milljónir manna.

Flaugin lenti síðan í hafinu langt frá Hokkaido en þetta var tuttugasta og sjöunda eldflaugaskot Norður-Kóreumanna á þessu ári. Talið er að flaugin að þessu sinni hafi verið meðal- eða langdræg en nánari upplýsingar liggja ekki fyrir. Yfirvöld í Suður-Kóreu, Japan og Bandaríkjunum hafa þegar fordæmt eldflaugaskotið eins og vaninn er í slíkum tilvikum.

Spenna á svæðinu hefur farið vaxandi undanfarið og segir breska ríkisútvarpið að Norður-Kóreumenn hafi ekki svarað í símann síðustu vikuna, en fyrir nokkru var komist að samkomulagi að tvisvar á dag mundu háttsettir aðilar Norður- og Suður-Kóreu ræða saman í síma til að ganga úr skugga um að allt sé með kyrrum kjörum. Engar skýringar hafa fengist á þessu samskiptaleysi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×