Umfjöllun og viðtöl: Njarð­vík – Tinda­stóll 52-85 | Tindastóll kafsigldi Njarðvíkinga í heimahöfn

Árni Jóhansson skrifar
Njarðvík fær Tindastól í heimsókn.
Njarðvík fær Tindastól í heimsókn. Vísir/Hulda Margrét

Tindastóll er kominn í 1-0 forystu í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik karla. Þeim tókst að bursta Njarðvíkinga í Njarðvík og var það að þakka geggjaðri byrjun. Leikar enduðu 52-85-xx og liðin mætast að nýju fyrir norðan á sunnudaginn. 

Liðin skiptust á fyrstu mínútum leiksins og þrisvar sinnum var jafnt alveg þangað til staðan var 7-7 og tæpar þrjár mínútur liðnar af leiknum. Oftar var ekki jafnt í leiknum því Stólarnir gjörsamlega kafsigldu Njarðvíkingana og kláruðu leik í raun og veru í fyrsta leikhluta. Stólarnir hittu úr fyrstu átta skotum sínum, fóru á 7-0 sprett og svo 13-0 sprett og áður en við var litið var staðan orði 9-29 fyrir Tindastól sem léku á als oddi og ekkert virtist stöðva þá. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 14-32 og ljóst að verkefnið var ærið fyrir heimamenn.

Verkefni sem Njarðvíkingar stóðust alls ekki. Skítféllu á því eins og menn segja. Tindastóll hélt áfram sínum leik með kraft og góða hittni að leiðarljósi og juku muninn jafnt og þetta þangað til að hálfleik lauk í stöðunni 25-50. Njarðvíkingar voru búnir að missa trú á því sem þeir voru að gera og skot þeirra litu út eins og að heimamenn væru að koma í fyrsta sinn í Ljónagryfjuna. Tindastóll hitti úr 60% skota sinna í fyrri hálfleik og þar á meðal fóru níu þriggja stiga skot heim en heimamenn hittu úr átta skotum í heild sinni í fyrri hálfleik.

Stólarnir byrjuðu af sama krafti og þeir sýndu í fyrri hálfleik og mjög snemma var munurinn kominn í 30 stig. Það var hægt að sjá það fyrir sér að leik væri í raun og veru lokið nema eitthvað stórkostlegt myndi geast hjá heimamönnum. Það gerðist ekki og þó að varnartilburðir Njarðvíkinga bötnuðu á köflum þá voru allir neistar sem kveiktir voru slökktir nánast um leið af gestunum. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 38-68.

Fjórði leikhluti var því einungis formsatriði og þó að menn sem hafa spilað færri mínútur kæmu inn á þá náðu Njarðvíkingar ekki að minnka muninn að ráði. Leikurinn endaði í 52-85 og grunar mann að einhverjir leikmenn heimamanna skammist sín þangað til að þeir fara á koddann í kvöld. Vonandi fyrir þeirra hönd verða þeir fljótir að jafna sig.

Afhverju vann Tindastóll?

Ég hugsa að þeir geti þakkað byrjun sinni í leiknum það að þeir hafi lagt Njarðvík í grasið og svo haldið þeim þar þangað til yfir lauk. Það er örugglega mjög lýjandi að sjá andstæðing sinn setja niður öll skot sem hent er upp á meðan ekkert gengur hjá þér og var það örugglega raunin. Tindastóll náði síðan að spila af eðlilegri getu út leikinn en Njarðvíkingar heillum horfnir.

Hvað gekk illa?

Njarðvík hitti úr minna en fjórðungi skota sinna eða 17 skotum af 69 sem gerir 24,6% skotnýtingu. Þetta gerði það að verkum að þeir skoruðu ekki meira en 14 stig í leikhluta og enduðu í 52 stigum. Góð vörn Stólanna og svo trúleysi heimamanna á eigin getu gerðu þetta að verkum.

Bestir á vellinum?

Stigahæstur í leiknum var Sigtryggur Arnar Björnsson með 21 stig. Hann hitti úr fimm þriggja stiga skotum í leiknum og voru fjögur þeirra í yfirkeyrslunni í byrjun. Adomas Drungilas var svo maður leiksins en hann skoraði, hann barðist, hann pirraði alla í húsinu og varði þrjú skot. Tindastóll vann mínúturnar hans með 27 stigum og skilaði hann 21 framlagsstigi.

Tölfræði sem vekur athygli

Frammistaða liðanna kjarnast í þeirri staðreynda að Stólarnir skiluðu 122 framlagspunktum í dag á móti 46 frá heimamönnum. Þetta er staðfesting á því sem maður sá með eigin augum. Tindastóll rótburstaði Njarðvíkinga.

Þá verður að nefna það að Pétur Rúnar Birgisson var stigalaus í kvöld. Hann var þó með 15 framlagspunkta og unnu Stólarnir hans mínútur með 23 stigum. Kappinn skilaði nefnilega 12 stoðsendingum, tapaði einum bolta og stal þremur boltum af heimamönnum. Hann þurfti svo ekki að skora neitt því fimm leikmenn gestanna fóru yfir 10 stig.

Hvað næst?

Það er mjög góð spurning. Eins og talað var um í textalýsingu fyrir leik þá er nánast ómögulegt að vinna Tindastól í Síkinu í úrslitakeppni en það verða Njarðvíkingar að gera núna ef þeir ætla sér í úrslit. Tindastóll getur gert það sama og þeir gerðu í kvöld eins og Pavel kom inn á í viðtali og þá munu góðir hlutir gerast.

Oddur Rúnar: Það er nógu erfitt að vinna Stólana þegar það er 0-0

Oddur Rúnar Kristjánsson reyndi eins og hann gat að koma sínum mönnum í takt í kvöld eins og allir þeir sem stigu inn á völlinn án þess að eiga erindi sem erfiði. Hann var spurður að því hvað væri hægt að segja eftir svona frammistöðu og úrslit.

„Það er bæði svo mikið og svo lítið sem hægt er að segja eftir þetta.  Þeir byrja á því að hitta úr fyrstu níu skotunum sínum eða eitthvað og við sáum bara aldrei til sólar eftir það.“

Var það spurning um að Njarðvíkingar hafi misst trú á verkefninu eftir þessa byrjun eða var það eitthvað annað sem kom að sök?

„Ég veit það ekki. Þetta er svo skrýtið þegar þeir hitta úr öllu í byrjun. Við lendum 25 stigum undir og það er nógu erfitt að vinna Stólana þegar það er 0-0 hvað þá þegar tími er farinn af klukkunni og þú ert 25 stigum undir.“

„Það eru náttúrlega miklar tilfinningar í þessu inn í klefa eftir leik. Við þurfum að ná okkur niður eftir leikinn og komum til baka sem lið. Það er alltaf þetta klisjukennda. Það skiptir ekki máli hvort við töpum með 50 stigum eða einu. Þeir eru bara 1-0 yfir og við förum yfir þetta á morgun og hinn vonandi tilbúnir til leiks á sunnudaginn“, sagði Oddur þegar hann var spurður hvað menn voru að tala um inn í klefa eftir leik.

Þá var hann spurður að því hvort einhver værukærð hafi komið yfir liðið hafandi verið í fríi milli umferða en Njarðvíkingar sópuðu Grindvíkingum í frí í átta liða úrslitum.

„Nei ég held ekki. Þeir bara hittu úr öllu. Þetta var bara blautt handklæði í smettið og þetta var gott sem búið í fyrsta leikhluta. Við hefðum getað spilað betur sem lið og gert þetta saman. Þetta gerist oft. Menn ætla að skora 15 stig í fimm sóknum og laga það strax þegar maður lendir mikið undir. Það er erfitt að halda haus þegar 35 mínútur eru eftir og það þarf að vinna muninn upp jafnt og þétt.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira