Þetta kemur fram í tilkynningu. Í samtali við Vísi segir Kristófer að hann skipuleggi bænastundina á eigin vegum. Fjórir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 27. apríl næstkomandi vegna dauða mannsins. Hann var af pólsku bergi brotinn og á þrítugsaldri.
„Mér rann blóðið til skyldunnar að skipuleggja þennan viðburð. Þessir atburðir hafa tekið mjög á pólska samfélagið á Íslandi og ég finn fyrir því að það er mikil reiði vegna málsins,“ segir Kristófer.

Yfirheyrslum yfir fólkinu lauk í gær en öll eru yngri en tuttugu ára og Íslendingar, eins og fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.
Áður hefur komið fram að engin tengsl virðast hafa verið milli sakborninga og þess látna.
„Þetta er mikið áfall. Við erum öll Íslendingar og við þurfum að standa saman gegn svona ofbeldi. Það eru allir velkomnir í kirkjuna á eftir, þetta á að vera róleg og falleg stund þar sem við komum saman og hugsum til þessa fólks,“ segir Kristófer.
„Ég á sjálfur sextán ára dreng hér heima og maður hefur miklar áhyggjur af þessu, hvernig verður þetta þegar hann fer að kíkja út á lífið?“