Erlent

Bætist í hóp ríkja sem styðja inn­göngu Úkraínu í NATO

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Kallas og Zelenskí við undirritunina í Zítómír héraði.
Kallas og Zelenskí við undirritunina í Zítómír héraði. EPA

Eistar bætast í hóp þeirra ríkja Atlantshafsbandalagsins sem styðja inngöngu Úkraínu. Viljayfirlýsing var undirrituð í gær í Zítómír héraði í norðurhluta Úkraínu

Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, og Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, undirrituðu í gær viljayfirlýsingu um að Úkraína fái inngöngu í Atlantshafsbandalagið (NATO).

„Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á samstarf og að Úkraína komist nær inngöngu í NATO, einkum í tengslum við NATO fundinn sem haldinn verður í Vilníus í júlí, sem og staðfestuna um að samhæfa aðgerðir til þess að tryggja öryggi Úkraínu fyrir inngönguna,“ sagði Ihor Sovkva, talsmaður Selenskí á samfélagsmiðlum eftir undirritunina.

Nefndi hann að Eistland sé tíunda NATO ríkið sem undirriti þess konar yfirlýsingu. Hin séu Ísland, Belgía, Ítalía, Tékkland, Litháen, Lettland, Pólland, Svartfjallaland og Slóvenía.

„Lokatakmarkið er einfalt, að hraða inngöngu Úkraínu. Þangað til erum við að vinna að því að fá yfirlýsingar ríkja um öryggistryggingar áður en við göngum í NATO,“ sagði Sovkva.

Dyggasta stuðningsþjóðin

Eistland hefur verið ein dyggasta stuðningsþjóð Úkraínu síðan innrás Rússa hófst í febrúar árið 2022. Hefur Eistland veitt hlutfallslega langmest allra í aðstoð til Úkraínu. Það er tvo þriðju hernaðarútgjalda landsins eða um 1 prósent af þjóðarframleiðslunni. Eistland hefur leitt stuðningsverkefni á vettvangi Evrópusambandsins, svo sem að útvega eina milljón stórskotaliðs sprengjur.

Auk þess að skrifa undir viljayfirlýsinguna skrifuðu Kallas og Selenski undir stuðning við friðaráætlun Úkraínumanna, stuðning við Evrópusambandsumsókn Úkraínu og stuðning við að komið verði á fót sérstökum sakamáladómstól til þess að draga rússneska stríðsglæpamenn til ábyrgðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×