Á vef FlightRadar mátti sjá að á ferðinni yfir landið væri Boeing CH-47F Chinook herþyrla. Voru áhugamenn um flug í Facebook hópnum „Fróðleiksmolar um flug“ fljótir að veita ferðum „þyrlunnar“ eftirtekt og hve fljótt hún flaug yfir landið og áleiðis til Noregs.
Vísir sendi utanríkisráðuneytinu fyrirspurn vegna málsins. Í svörum Sveins H. Guðmarssonar, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins, kemur fram að um misskilning sé að ræða, nokkuð sem flugáhugamennirnir voru löngu búnir að átta sig á.
Segir í svari utanríkisráðuneytisins:
„Þetta er byggt á misskilningi. Þarna var á ferðinni bandarísk P-8 kafbátaleitarvél sem virðist hafa verið ranglega skráð á Flightradar sem Chinook-þyrla. P-8 vélarnar hafa haft tímabundna viðveru hér á landi undanfarin ár.“

Í umræðum flugáhugamanna um málið kemur fram að ekki sé um fyrstu vitleysuna að ræða í boði FlightRadar. „Hraðskreiðasta þyrla í heimi,“ skrifar einn áhugamannanna á léttum nótum og vísar til þess að hraðinn var mun meiri en þekkist þegar þyrlur eru annars vegar.
Eftirlitsferðir nánast alla daga ársins
Sveinn segir í svörum til Vísis ekki hafa skýringar á því hvers vegna flugvélin skráist sem herþyrla á vef FlightRadar.
Hann segir að um sé að ræða flugvélar við kafbátaeftirlit bandalagsríkja í NATO, sem hafi farið fram við Ísland undanfarin ár vegna aukinnar umferðar kafbáta í kringum Ísland og á Atlantshafinu.
„Tímabundin viðvera þessara eftirlitsvéla ræðst af umfangi þessarar umferðar á hverjum tíma en segja má að undanfarin misseri hafi verið flogið frá Íslandi í slíkar eftirlitsferðir nánast alla daga ársins.“
