Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar þar sem fram kemur að eftir samráðsfund vísindamanna á Veðurstofunni bendi gögn til þess að um hafi verið að ræða snarpa jarðskjálftahrinu í gær, en slíkar hrinur eru þekktar í Kötlu.
„Rúmlega 40 skjálftar hafa mælst síðasta sólarhringinn, þar af þrír skjálftar yfir 4 af stærð. Skjálftarnir voru þó óvenju stórir og fara þarf aftur til ársins 2016 til að finna sambærilega hrinu og nú.
Fluglitakóðinn fyrir Kötlu hefur verið færður aftur niður á grænan. Óvissustig Almannavarna er áfram í gildi og náið verður fylgst með þróun mála í Mýrdalsjökli,“ segir í færslunni.
Þá segir á vef lögreglu að ákveðið hafi verið að aflétta lokun á veginum inn að Kötlujökli.
Tengist vatni og jarðhita
Kröftug jarðskjálftahrina hófst í norðausturhluta öskjunnar í Kötlu klukkan 9:41 í gærmorgun. Þrír skjálftar yfir fjórum að stærð mældust, sá stærsti 4,5 klukkan 9:52. Ekki gerðist þó mikið eftir klukkan 11 í gær.
Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár hjá Veðurstofunni, sagði í samtali við fréttastofu í gær virknin hafi verið þannig að skjálftarnir hafi verið fremur grunnir. Því mætti telja líklegast að skjálftarnir sem urðu hafi tengst jarðhita og vatni, frekar en kvikuhreyfingum.