Utanríkisráðuneytið hefur leitt undirbúningsvinnuna í Hörpu fyrir Leiðtogafundinn sem hefst á morgun og stendur fram til miðvikudags í góðu samstarfi við forsætisráðuneytið, ríkislögreglustjóra og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Ragnar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri fundarins, segir verkefnið á mjög góðum stað.
Augu heimsins á Íslandi
„Undirbúningurinn gengur afskaplega vel. Stóri dagurinn er náttúrulega á morgun þegar fundurinn hefst. Hér eru hundruð manna í húsi að vinna alveg gríðarlega mikla vinnu og við höfum lagt mikinn metnað í allan undirbúning. Hér að vinna fólk á vegum lögreglu, stjórnarráðsins og fjöldinn allur af verktökum,“ segir Ragnar. Augu heimsins verði á Íslandi næstu daga og að það muni reyna á fagmennsku og útsjónarsemi að halda öllu gangandi.

Ragnar segir almenna borgara hafa sýnt mikla þolinmæði og jákvætt viðmót þrátt fyrir öryggisráðstafanir í kringum Hörpu og að þau séu afar þakklát því. „Ég myndi segja að við værum á mjög góðum stað. Það má segja að við séum að keyra saman mismunandi kerfi hér í húsinu í Hörpu, á vegum lögreglunnar og okkar í utanríkis- og forsætisráðuneytinu. Það eru ýmis flókin úrlausnarefni en það eru allir boðnir og búnir að finna út úr hlutum. Við erum mjög bjartsýn á þessum tímapunkti,“ segir hann og bætir við að allt sé að verða klappað og klárt.
Íslandi til sóma
„Það er rosalega gaman að sjá umbreytinguna hér í húsinu. Þetta verður afskaplega glæsilegur viðburður og Íslandi til sóma. Það er svona verið að koma með síðustu hlutina í hús, blóm og svona. Tryggja það að hér verði matur og aðstaða fyrir alla. Það er alltaf eitthvað smávægilegt sem þarf að bregðast við en þetta er allt í góðum farvegi,“ segir Ragnar að lokum.
Víðtækar lokanir
Búist er við vel yfir þúsund gestum í tengslum við fundinn og mega íbúar höfuðborgarsvæðisins búast við umferðartöfum víðs vegar í borginni og á Reykjanesbraut. Má áætla að áhrifin verði hvað mest síðdegis á morgun, þriðjudag, og á miðvikudag. Þá verður miðborg Reykjavíkur lokuð fyrir fyrir almennri umferð ökutækja í rúma tvo sólarhringa. Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að lokunin tæki í gildi í kvöld.
Stórt svæði í miðborg Reykjavíkur verður lokað fyrir umferð bíla og verður svæðið í kringum Hörpu lokað fyrir allri umferð á meðan ráðstefnunni stendur. Hægt verður að fara um miðborgina fótgangandi eða á hjóli en það á hins vegar ekki við um svæðið næst Hörpu sem verður alveg lokað almenningi.