Erlent

Íslandi fái áfram fríar flugheimildir til 2026

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Keflavíkurflugvelli þar sem mörg þúsund farþega fara í gegn á hverjum degi.
Frá Keflavíkurflugvelli þar sem mörg þúsund farþega fara í gegn á hverjum degi. Vísir/Vilhelm

Lausn sem Evrópusambandið og íslensk stjórnvöld hafa náð bráðabirgðasamkomulagi um felur í sér að Ísland fær áfram fríar losunarheimildir til og með árinu 2026. Þetta kom fram á blaðamannafundi Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í dag.

Íslensk stórnvöld hafa sóst eftir undanþágum frá nýjum og hertum Evrópureglum sem eiga að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá flugsamgöngum. Þau telja reglurnar skaða samkeppnisstöðu íslenskra flugfélaga og taki ekki tillit til landfræðilegrar legu Íslands sem geri landsmenn háða flugsamgöngum umfram aðra íbúa álfunnar.

Reglurnar fela meðal annars í sér breytingar á viðskiptakerfi Evrópu með losunarheimildir. Flugfélögum yrði nú gert að greiða fyrir losunarheimildir í stigvaxandi mæli en þau hafa fram að þessu fengið þær að mestu ókeypis.

Ætlun ESB er að fríum losunarheimildir til flugfélaga fækki um fjórðung fyrir 2024 og helming fyrir 2025. Þeim verði alfarið útrýmt eftir 2026.

Þær Katrín og von der Leyen funduðu fyrir leiðtogafund Evrópuráðsins í dag. Eftir hann sögðu þær báðar að lausn hefði fundist sem samrýmist markmiðum ESB fyrir flugeirann.

Von der Leyen sagði að íslenskum stjórnvöldum yrði boðið að fá ókeypis losunarheimildir sem þau geti útdeilt til flugfélaga bæði árið 2025 og 2026. Mikilvægt sé að þau geti gefið öllum flugfélögum heimildirnar til þess að sanngirni sé gætt.

Samkomulagið er þó háð samþykki aðildarríkja Evrópusambandsins auk íslenskra stjórnvalda og Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×