Þetta kemur fram í tilkynningu frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Þar segir að þegar Vinnumálastofnunin hafi tekið við þjónustunni við hælisleitendur um mitt síðasta ár hafi sjö hundruð verið búsettir í húsnæði ætluðu umsækjendur um alþjóðlega vernd.
„Það sem af er ári eru umsækjendur orðnir fleiri en á sama tíma í fyrra eða um 2.000 talsins. Að jafnaði hafa um 100 einstaklingar á viku sótt um alþjóðlega vernd hér á landi frá því í janúar sl.
Tölfræðina má nálgast á vef Stjórnarráðsins en þar sést meðal annars að frá áramótum hafa ríflega tvisvar sinnum fleiri sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi en allt árið 2021. Flest fólkið kemur frá Venesúela og Úkraínu en fjöldi ríkisfanga er 49. Börn eru 20% hópsins.
Þau sem sæta ofsóknum í heimalandi sínu eða eiga þar á hættu til að mynda pyndingar eða ómannúðlega meðferð eiga rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi sem flóttafólk. Þau sem koma hingað til lands og óska eftir viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamenn teljast vera umsækjendur um alþjóðlega vernd. Áður var talað um hælisleitendur í þessu samhengi eða um fólk í leit að hæli, það er griðastað,“ segir í tilkynningunni.